„Fundurinn fagnar opinni umræðu og hvetur til óháðrar og faglegrar úttektar á vegum Mennta – og menningarmálaráðherra og Félags – og jafnréttismálaráðherra „á umfangi og birtingarmyndum kynferðislegrar áreitni, ofbeldis og misbeitingar á valdi í sviðslistum og í kvikmynda – og sjónvarpsiðnaði á Íslandi,“ segir í tilkynningu.
Félögin sem standa saman að ályktuninni, sem samþykkt var á fundi í dag, eru: Félag íslenskra leikara, Félag leikstjóra á Íslandi, Félag leikskálda og handritshöfunda, Bandalag íslenskra listamanna, Þjóðleikhúsið, Leikfélag Reykjavíkur í Borgarleikhúsi, Menningarfélag Akureyrar, Íslenska Óperan, Sjálfstæðu leikhúsin, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Samtök kvikmyndaleikstjóra og RÚV.
Mikil umræða hefur farið fram að undanförnu um kynferðislegt ofbeldi innan leikara- og afþreyingariðnaðarins, ekki síst í Hollywood. Konur hafa stigið fram og greint frá ofbeldi og áreitni, sem leitt hefur til afhjúpunar á ofbeldismönnum, eins og Harvey Weinstein og nú síðast Kevin Spacey.
Þá hafa einnig komið fram á sögur um ofbeldi og áreitni innan leikarasamfélagsins á Íslandi, eins og greint hefur verið frá, og ekki síst þess vegna vilja fyrrnefnd félög að óháð úttekt fari fram.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur sagt að taka þurfi ábendingum um ofbeldi og áreitni mjög alvarlega, og vinna markvisst að því að uppræta það og bæta úr því sem þarf að bæta úr. Sú vinna hefjist strax.