Svandís Svavarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, hrósar Katrínu Jakobsdóttur, formanni flokksins, í hástert í færslu á Facebook-síðu sinni í dag. Hún segir að það yrði stórkoslegt tækifæri fyrir þjóðina „ef það tekst að ganga frá málefnum þannig að hún geti orðið forsætisráðherra landsins.“
„Það er ekki spurning um stól heldur aðferð, viðhorf og nýja nálgun. Traustið hrundi fyrir efnahagshrunið og hefur ekki tekist að endurreisa það. Með nýjum vinnubrögðum og endurreisn innviðanna þá gæti það tekist,“ skrifar Svandís ennfremur.
Katrín var viðmælandi Gísla Marteins Baldurssonar í þættinum Vikunni á RÚV í gærkvöldi og í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Katrín ræddi þar stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Í dag er hlé á viðræðunum.
„Það þarf að gefa henni og VG tækifæri til að mynda ríkisstjórn - málefnaumræðan er ekki komin á enda og það er ekkert búið fyrr en allt er búið,“ skrifar Svandís sem biðlaði á dögunum til samflokksmanna sinna að yfirgefa ekki flokkinn vegna stjórarmyndunarviðræðnanna fyrr en málefnasamningur lægi fyrir og hægt væri að taka efnislega afstöðu til málsins.
„En þjóðin sér Katrínu í forystuhlutverki. Hún hefur bent á að hagsmunir þjóðarinnar skipti öllu - þröngir flokkshagsmunir mega ekki ráða för. Við kusum hana aftur til formennsku í VG fyrir nokkrum vikum og til að hún nái að skila verkefnum af sér þurfum við að veita henni stuðning. Þannig stöndum við reyndar ekki aðeins með henni heldur líka með sjálfum okkar sem kusum hana í verkin.“