Út er komin leiðarvísir fyrir þingmenn á þjóðþingum Norðurlanda sem vilja láta til sín taka í loftslagsmálum. Norðurlandaráð gefur leiðavísinn út sem heitir á ensku Clever climate legislation.
Handbókin á að undirbúa þingmenn um heim allan fyrir mikilvæg verkefni svo hægt sé að ná loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins sem undirritað var árið 2015.
Steen Gade, danskur stjórnmálamaður sem átti eitt sinn sæti á danska þinginu og í Norðurlandaráði, skrifaði leiðarvísinn. Þar veitir hann innsýn inn í gangverk alþjóðlegra samninga um loftslagsmál og kynnir verkfæri sem þingmenn geta notfært sér til þess að vera meðvitaðri um loftslagsmál.
„Þingmenn um allan heim standa frammi fyrir risa stóru verkefni,“ er haft eftir Britt Lundberg, forseti Norðurlandaráðs, í frétt á vef ráðsins. „Verkefnin snúast um að skapa lagalegan ramma og undirstöður fyrir lausnir á loftslagsvandanum. Til þess að heimurinn geti staðið við skuldbindingarnar sem lýst er í Parísarsamkomulaginu þarf vitræna og árangursríka loftslagslöggjöf.“
Í handbókinni er farið yfir lykilþætti í loftslagstefnu Norðurlanda, Evrópu og alþjóðlega stefnu í loftslagsmálum. Þar eru einnig gefin ráð um það hvernig hægt er að hafa frekari áhrif á loftslagsstefnu stjórnvalda í hverju landi, til dæmis með því að auka athygli á minni losun gróðurhúsalofttegunda frá hinum alþjóðlega flutningageira, hvort sem það er í loft eða á leigi.
„Þingmenn um allan heim verða að láta ríkisstjórnir axla ábyrgð á skuldbindingum sínum,“ er haft eftir Bärbel Höhn, fyrrverandi þingmaður og yfirmaður umhverfisráðs þýska sambandsþingsins.