Viðar Már Matthíasson, dómari við Hæstarétt, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að hann hafi talið, að mögulega hafi afskipti Jóns Steinars Gunnlaugssonar, þáverandi dómara við Hæstarétt, af máli Baldurs Guðlaugssonar, varðað við almenn hegningarlög. Hann hafi átt fund með Jóni Steinari, þar sem hann komi því til skila til Jón Steinars að hann ætti þegar í stað að láta af afskiptunum, og það hafi hann gert. Þess vegna hafi ekki verið farið með málið lengra.
Þetta kemur fram í svari Viðars Más, fyrir hönd Hæstaréttar, við fyrirspurn Kjarnans til réttarins. Viðar Már var varaforseti Hæstaréttar þegar mál Baldurs var þar til meðferðar.
Eins og greint var frá með ítarlegum hætti, í fréttaskýringaþættinum Kveiki á RÚV, þá hefur Benedikt Bogason, dómari við Hæstarétt, stefnt Jóni Steinari vegna skrifa hans í bókinni Með lognið í fangið - Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun, en þar heldur Jón Steinar því fram að „dómsmorð hafi verið framið gagnvart Baldri Guðlaugssyni.
Baldur var dæmdur í Hæstarétti fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi, í tengslum við sölu hans á hlutabréfum í Landsbankanum 17. og 18. september 2008. Baldur var þá ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Söluverðmæti uppi á 192 milljónir króna var gert upptækt, en með dómi Hæstaréttar var niðurstaða í héraði staðfest.
Fyrirspurn Kjarnans til Hæstaréttar snéri að því, hvort það hafi komið til álita að kæra Jón Steinar fyrir brot á lögum í tengslum við afskipti hans af máli Baldurs, en hann var vanhæfur í málinu sökum tengsla við Baldur.
Svar Viðars Más, fyrir hönd Hæstaréttar, við fyrirspurninni var eftirfarandi: „Vegna fyrirspurnar sem borist hefur um hvort komið hafi til greina að kæra Jón Steinar Gunnlaugsson, þá hæstaréttardómara, vegna tilrauna hans til þess að hafa áhrif á afstöðu dómenda í máli nr. 279/2011: Ákæruvaldið gegn Baldri Guðlaugssyni, vil ég taka eftirfarandi fram: Ég var á þessum tíma varaforseti Hæstaréttar og sat í forsæti í þessu máli, en aðrir dómendur voru hæstaréttardómararnir: Benedikt Bogason, Garðar Gíslason, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Eftir flutning málsins og meðan á samningu dóms í málinu stóð varð ég þess var að einn dómenda við réttinn, Jón Steinar Gunnlaugsson, sem var vanhæfur til að dæma í málinu vegna náinna vináttutengsla við ákærða, hafði komið að máli við dómarana Benedikt Bogason og Garðar Gíslason og síðar við Gretu Baldursdóttur og freistað þess að sannfæra þau um að sýkna ætti ákærða í málinu. Í þessu skyni hafði hann meðal annars afhent þeim blað með texta, sem hann hafði sjálfur samið, og taldi að þar væru meginspurningar í málinu settar fram og hver væru hin réttu svör við þeim. Svörin, eins og hann setti þau fram, ættu að leiða til sýknu. Þessi hegðun dómarans fór þvert á ríka venju hér við réttinn um að þegar dómari er vanhæfur í máli, þá haldi hann sig til hlés og tjái sig ekki um málið hvað þá freisti þess að lýsa skoðunum sínum á því hvernig eigi að dæma í því. Það er reyndar einnig svo að dómarar leitast ekki við að hafa áhrif á úrlausn mála, sem þeir eru ekki sjálfir dómarar í.
Framangreint er í samræmi við fyrirmæli laga um sjálfstæði dómenda, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998. Ég taldi að háttsemi Jóns Steinars samrýmdist ekki framangreindri venju og að ekki væri útilokað að afskipti dómarans gætu falið í sér brot á ákvæðum í XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ég átti þess vegna fund með Jóni Steinari og fann að þessari háttsemi hans og óskaði eftir því að hann léti þegar af henni. Hann varð við beiðni minni og hætti þeirri viðleitni sem að framan er lýst. Ég taldi þess vegna ekki þörf á því að rannsaka hvort háttsemin hefði falið í sér brot á ákvæðum í tilvitnuðum kafla almennra hegningarlaga til þess að unnt væri að leggja mat á hvort ástæða væri til að kæra háttsemina. Um þessa afstöðu vísast til 1. mgr. 28. gr. laga um dómstóla. Ég taldi heldur ekki tilefni til þess leggja grundvöll að kvörtun til nefndar um dómarastörf, sbr. 2. mgr. greinarinnar.“
Jón Steinar hefur sjálfur sagt, að engin lög hafi verið brotin þegar hann kom upplýsingum til meðdómara í réttinum, um sýknuástæður í máli Baldurs.
Mál Benedikts gegn Jóni Steinari var þingfest 15. nóvember síðastliðinn og var þá gefinn frestur til 13. desember til að skila greinargerðum. Lögmaður Benedikts í málinu er Vilhjálmur Vilhjálmsson hrl. og verjandi Jón Steinars er Gestur Jónsson hrl.