Forstjóri Símans, Orri Hauksson, segir í bréfi til Póst- og fjarskiptastofnunar (Póst og fjar) að í langan tíma hafi fengist að viðgangast „skekkja“ á fjarskiptamarkaði vegna starfsemi Gagnaveitunnar, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta bitni beint á fyrirtækjum í samkeppni, þar á meðal Símanum.
„Í heild er því ljóst að kerfisbundin og markviss skekkja hefur fengið að viðgangast og magnast upp í óratíma á íslenskum fjarskiptamarkaði. Síminn óskar eftir því að íslensk fjarskiptayfirvöld leiðrétti þessa villu,“ segir hann í lok bréfsins, sem stílað er á Hrafnkel V. Gíslason, forstjóra Póst og fjar. og Björn Geirsson, yfirlögfræðing stofnunarinnar. Það var sent 10. nóvember síðastliðinn.
Allt önnur staða
Í bréfinu, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir Orri að Gagnaveitan búi við allt aðra stöðu á samkeppnismarkaði heldur en einkareknir keppinautar. Fyrirtækið geti í krafti opinbers eignarhalds verið með allt önnur viðmið þegar kemur að aðgengi að fjármagni, fjárfestingum og afkomu. „Dótturfélag OR sem stundar samkeppnisrekstur í fjarskiptum þarf við framangreindar aðstæður augljóslega að fara fram með sérstaklega vandvirkum hætti og leggja sig fram um „að viðunandi arðsemi náist innan eðlilegs tímafrests,“ eins og Póst og fjar. hefur gert kröfu um í fjárfestingum starfsemi Gagnaveitunnar,“ segir Orri í bréfi sínum.
Eins og greint var frá að vef Kjarnans í október þá sendu Samtök iðnaðarins (SI) Degi B. Eggertssyni borgarstjóra bréf 11. október síðastliðinn, þar sem þau lýsa yfir áhyggjum sínum vegna háttsemi Gagnaveitunnar, og segja hana samkeppnishamlandi.
Í bréfinu er sérstaklega vikið að því að GR skuli bræðisjóða fjarskiptalagnir innan húsa við ljósleiðarataug. Er þetta sagt fara gegn úrskurðum Póst- og fjarskiptastofnunar og úrskurðarnefndar fjarfskiptamála, en að GR hafi haldið áfram uppteknum hætti eftir þá niðurstöðu. „Þessi frágangur GR leiðir til þess að enginn þjónustuveitandi í innviðum, annar en GR, kemst að innanhússlögnum í viðkomandi húsum,“ segir í bréfi SI til borgarstjóra, og er þetta sagt hamla samkeppni og koma í veg fyrir að aðrir þjónustuveitendur á þessu sviði, komist inn á markaðinn.
Orri víkur einnig að þessu í bréfi sínu til Póst og fjar. og segir að Gagnaveitan neiti að veita „passífan“ aðgang að innviðum sínum, þvert á það sem Evrópusambandið og Alþingi vilji ýta undir, til að auka samkeppni, hagkvæmni og fjölbreytni.
Segir SI ganga erinda
Í svarbréfi sem forstjóri Gagnaveitunnar, Erling Freyr Guðmundsson, sendi til Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, borgarstjóra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Póst- og fjarskiptastofnunar, Vodafone, Símans og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, er látið að því liggja að SI séu með bréfi sínu að ganga erinda einstakra fyrirtækja á markaðnum.
Hann segir auk þess Ljósleiðarann, á vegum Gagnaveitunnar, hafa verið í mikilli samvinnu við fjölmarga aðila við að styrkja fjarskiptakerfi landsins og innviði á sviði netþjónustu. Þar á meðal séu rafverktakar og aðrir sem sinni iðnaði af ýmsum toga. Hann neitar með öllu að fyrirtækið sé að brjóta af sér, og segir að í bréfi SI sé ekki farið rétt með staðreyndir.
Beinir spjótum að fjármögnun
Í bréfi sínu beinir Orri spjótunum að fjármögnun Gagnaveitunnar og segir hana ekki vera í samræmi við þá leiðsögn hafi komi fram þegar Póst og fjar. samþykkti hlutafjáraukningu OR í Gagnaveitunni, árið 2014. Þá hafi komið fram, að eftir hana ætti fjárhagslegur aðskilnaður að vera orðinn eðlilegur, miðað við samkeppnisforsendur á markaði. Þetta segir Orri ekki vera stöðuna núna, og tölur úr rekstri Gagnaveitunnar sýni þetta. Vaxandi rekstrar- og fjárfestingakosnaður sé einnig umhugsunarefni í þessu samhengi, segir Orri í bréfinu.
Samkvæmt ársreikningi Gagnaveitunnar fyrir árið 2016 var tap af rekstri félagsins 172 milljónir króna. Eigið fé var 7,5 milljarður króna og eiginfjárhlutfallið tæplega 50 prósent. Starfsgildi hjá félaginu voru rúmlega 50, að því er fram kemur í ársreikningnum.
Hagnaður af rekstri Símans á síðasta ári var 2,7 milljarðar króna. Eigið fé félagsins nemur nú 35,9 milljörðum króna og heildareignir ríflega 60 milljörðum. Félagið er skráð í kauphöll Íslands og hefur markaðsvirði félagsins aukist um 34,8 prósent á árinu.