Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur boðað Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, á fund sinn á Bessastöðum á morgun, þriðjudag, klukkan 10:30. Þar mun Katrín væntanlega fá formlegt umboð til myndunar ríkisstjórnar.
Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í dag verða flokksstofnanir Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna verði kallaðar saman á miðvikudag til að bera undir þær stjórnarsáttmála. Ef allar flokksstofnanir flokkanna þriggja samþykkja myndun ríkisstjórnarinnar mun hún verða formlega mynduð annað hvort á fimmtudag eða laugardag. Föstudagurinn 1. desember, fullveldisdagur þjóðarinnar, þykir ekki koma til greina vegna þess að forseti Íslands er ekki viðlátinn til að halda fyrsta ríkisráðsfund nýrrar ríkisstjórnar á þeim degi vegna embættisskyldna.
Fyrsta mál sem hin nýja ríkisstjórn mun leggja fram verða fjárlög og það er ekki hægt að gera fyrr en hún hefur verið formlega mynduð. Auk þess þarf framlagning fjárlaga að ganga í gegnum ákveðinn feril áður en hægt er að leggja þau fram.