Formaður Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, hitti forsetann á Bessastöðum í morgun en þau áttu boðaðan fund kl. 10:30. Á þeim fundi fékk Katrín formlegt umboð til að mynda ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum.
Katrín sagði eftir fundinn að þau hefðu farið yfir málin og að hún hefði gefið forsetanum skýrslu. Sameiginleg niðurstaða þessara þriggja flokka hafi verið sú að Katrín fái umboðið og verði forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn.
Hún sagði að stjórnarandstöðunni hefði verið boðin formennska í þremur nefndum, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, velferðarnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd. Svar hefði ekki enn borist við því.
Þingflokksfundur VG verður á fimmtudaginn þar sem endanlega verður gengið frá málinu. Frekari upplýsingar um ráðherraskipan mun liggja fyrir þegar ríkisstjórn verður kynnt. Þetta kom fram í máli Katrínar.
Katrín trúir því að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn séu tilbúin að breyta vinnubrögðum á Alþingi ef marka megi viðræður þeirra. Fjárlagafrumvarpið mun vera sett fram fyrir áramót en hugsanlega önnur mál, segir hún. Mjög líklegt sé að þinghald verði milli jóla og áramóta.
Stjórn mynduð eins fljótt og auðið er
Guðni Th. sagði eftir fundinn að hann hefði veitt Katrínu umboð til stjórnarmyndunar með Framsókn og Sjálfstæðisflokki.
Hann sagði að enginn einn hefði ráðið för af þeim þremur flokksformönnum og þess vegna hefði enginn fengið umboðið hingað til. Væntanlegur forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hefði aftur á móti fengið umboðið núna til að mynda stjórn, enda væntanlegur forsætisráðherra í nýrri stjórn.
Aðspurður hvenær stjórn yrði formlega mynduð sagði Guðni Th. að það yrði eins fljótt og auðið er, hugsanleg á fimmtudaginn.
Stofnanir flokkanna verða að samþykkja myndunina
Kjarninn greindi frá því í gær að flokksstofnanir Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna verði kallaðar saman á morgun miðvikudag til að bera undir þær stjórnarsáttmála. Ef allar flokksstofnanir flokkanna þriggja samþykkja myndun ríkisstjórnarinnar mun hún verða formlega mynduð annað hvort á fimmtudag eða laugardag.
Föstudagurinn 1. desember, fullveldisdagur þjóðarinnar, þykir ekki koma til greina vegna þess að forseti Íslands er ekki viðlátinn til að halda fyrsta ríkisráðsfund nýrrar ríkisstjórnar á þeim degi vegna embættisskyldna.
Fyrsta mál sem hin nýja ríkisstjórn mun leggja fram verða fjárlög og það er ekki hægt að gera fyrr en hún hefur verið formlega mynduð. Auk þess þarf framlagning fjárlaga að ganga í gegnum ákveðinn feril áður en hægt er að leggja þau fram.