Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman í dag til að ræða eldflaugaskot hers Norður-Kóreumanna, en flaugin, sem skotið var á loft í tilraunaskyni, lenti í hafinu innan japanskrar lögsögu.
Samkvæmt tilkynningu frá stjórnvöldum í Norður-Kóreu - með leiðtogann Kim Jong Un í broddi fylkingar - ræður Norður-Kórea nú yfir flaugum sem ná yfir öll Bandaríkin, líka yfir á austurströndina.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Japan og Suður Kóreu höfðu áður kallað eftir neyðarfundi, nánast um leið og tilraunaskotið fór fram.
Her Suður-Kóreu, sem er dyggilega studdur Bandaríkjaher og Japönum, hóf fljótlega eldflaugaskotaæfingu eftir þetta, sem stóð yfir í ríflega þrjár klukkustundir.
Spennan á Kóreuskaga er nánast áþreifanleg þessi misserin en mest er hún á landamærum Norður- og Suður-Kóreu.
I am posting again the letter from the former Deputy Commander of US Forces Korea on what war with North Korea would look like. There is bluster, and there is reality. Not knowing the difference can result in the loss of millions of lives. https://t.co/gAy53et5Oe
— Ted Lieu (@tedlieu) November 28, 2017
Fyrir rúmlega tveimur mánuðum skaut her Norður-Kóreu upp eldflaug sem flaug inn í lofthelgi Japans, og fóru viðvörunarflautur í gang og neyðaráætlanir fyrir íbúa voru settar af stað. Eldflaugin endaði svo í sjónum.
Flugleið flaugarinnar nú var um eitt þúsund kílómetra löng og var hún tæplega 50 mínútur á lofti. Aldrei hefur eldflaug frá Norður-Kóreu farið jafn hátt á loft í tilraunaskotum, samkvæmt umfjöllun BBC, en talið er að flaugin hafi farið 4,8 kílómetra upp í loftið.
Bandaríkjaforseti, Donald J. Trump, sagði á blaðamannafundi að bandarísk stjórnvöld „myndu sjá um þetta“ en sagði ekki hvað þau ætluðu sér að gera.
Búist er við því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna muni álykta harðlega gegn eldflaugatilraunum Norður-Kóreu og krefjast enn harðari efnahagsþvingana af hálfu Kínverja.