Símtal milli þáverandi formanns Seðlabanka Íslands, Davíðs Oddssonar, og þáverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, sem átti sér stað 6. október 2008 er umræðuefni sjónvarpsþáttar Kjarnans á Hringbraut í kvöld klukkan 21.
Í símtalinu ræddu þeir neyðarlánalánveitingu til Kaupþings upp á 500 milljónir evra, sem kostaði íslenska skattgreiðendur á endanum 35 milljarða króna í tap. Endurrit af símtalinu birtist í fyrsta sinn opinberlega fyrir um tíu dögum í Morgunblaðinu, sem Davíð ritstýrir.
Þórður Snær Júlíusson fær Þorbjörn Þórðarson, fréttamann á fréttastofu 365 og lögfræðing, til að ræða símtalið og þær upplýsingar sem fram koma í þeim. Þorbjörn skrifaði leiðara í Fréttablaðið í síðustu viku þar sem hann velti því fyrir sér hvort að þau samskipti sem áttu sér stað í símtalinu gætu verið umboðssvik, með vísun í dómafordæmi Hæstaréttar.
Jón Steindór Valdimarsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, er einnig gestur þáttarins og ræðir meðal annars um hvað valdi því að íslensk stjórnsýsla er svona oft treg til að opinbera upplýsingar sem eiga klárt erindi við almenning.