Andrés Ingi Jónsson, sem ásamt Rósu Björk Brynjólfsdóttur studdi ekki stjórnarsamstarf Vinstri grænna við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, studdi ráðherralista flokksins á þingflokksfundi í morgun.
Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Andrés að hann muni, í samræmi við samþykkt flokksráðs Vinstri grænna í gær „leggja mín lóð á vogarskálarnar innan þingflokks Vinstri grænna til þess að okkar málefni nái fram að ganga. Eins og gefur að skilja eftir þá gagnrýni sem ég hef haft uppi á samstarf stjórnarflokkanna mun ég vera gagnrýnin – en uppbyggileg – rödd innan hópsins og reyna að teygja rammann enn lengra í átt að því sem Vinstri græn standa fyrir.
Og mikið rosalega er gaman að Katrín Jakobsdóttir sé að verða forsætisráðherra!“
Andrés Ingi sagði í ræðu sinni á flokksráðsfundi flokksins í gærkvöld, þar sem hann færði rök fyrir ákvörðun sinni um að styðja ekki stjórnarsamstarf Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, að hann óttist að flokkurinn verði of „samdauna“ samstarfsflokkunum, og geti ekki haft nægilega mikil áhrif.
Hann sagði auk þess að margt í stjórnarsáttmálanum væri of líkt því sem fráfarandi ríkisstjórn hafi verið með í sínum sáttmála, og það sé ekki eitthvað sem Vinstri græn geti sætt sig við.
Í ræðu sinni sagði hann að textinn sem tengdist umfjöllun um skattamál hefði allt eins geta komið frá Viðskiptaráði en Vinstri grænum.