Kolbrún Bergþórsdóttir hefur sagt upp störfum sem ritstjóri DV. Þetta kemur fram á Vísi. Þar er haft eftir Kolbrúnu að hún hætti í góðu en sé ósátt við skipulagsbreytingar sem kynntar voru hjá DV fyrir helgi. Sigurvin Ólafsson hefur einnig verið ritstjóri DV undanfarna mánuði. Hann vildi ekki tjá sig um stöðu mála þegar Vísir náði sambandi við hann.
Skipulagsbreytingarnar sem Kolbrún minntist á voru þær að Kristjón Kormákur Guðjónsson hefði verið ráðinn aðalritstjóri DV, DV.is og tengdra miðla.
Greint var frá því í júní 2017 að Sigurvin, sem hafði verið framkvæmdastjóri DV um nokkurt skeið, hefði tekið við starfi ritstjóra hjá miðlinum en að Kolbrún yrði áfram ritstjóri við hlið hans. Hún tók við þeirri stöðu í árslok 2014.
Frjáls fjölmiðlun keypti í byrjun september flesta fjölmiðla Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. Skömmu síðar var Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, ráðinn sem framkvæmdastjóri félagsins.
Stærsti hluthafi Pressunnar, Fjárfestingafélagið Dalurinn, greindi frá því í tilkynningu 24. nóvember að kaupverðið hefði verið greitt „með yfirtöku á kröfu fráfarandi stjórnarformanns á félagið að fjárhæð 80.000.000 króna auk yfirtöku á handvöldum skuldum félaganna þar sem Björn Ingi Hrafnsson er í persónulegum ábyrgðum. Þetta ásamt öðrum atriðum, sem nánar verður gerð grein fyrir síðar, hefur gert það að verkum að legið hefur fyrir grunur um að ekki hafi einungis verið misfarið með fjármuni félaganna heldur hafi kröfuhöfum félaganna einnig verið mismunað í bága við lög.“