Héraðsdómur Reykjanes samþykkti í dag að veita United Silicon áframhaldandi greiðslustöðvun til 22. janúar 2018. Fyrri greiðslustöðvun félagsins rann út í dag. Samkvæmt upplýsingum frá United Silicon var ákvörðunin tekin á stjórnarfundi félagsins fyrir helgi og samþykkti Héraðsdómur Reykjanes þá beiðni í dag.
United Silicon rekur kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Félagið óskaði eftir greiðslustöðvun 14. ágúst síðastliðinn. Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðjunni sem hóf framleiðslu í nóvember 2016, og rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem hafa valdið félaginu miklu tjóni. Gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV hf., sem féll fyrr á þessu ári, jók enn á óvissu félagsins. Samkvæmt honum þarf United Silicon að greiða ÍAV um einn milljarð króna.
Marga milljarða kostar að ljúka uppbyggingu verksmiðjunnar - sem var ekki tilbúin þegar hún var gangsett - og koma henni í gang á nýjan leik, ef það fæst til þess leyfi, en Umhverfisstofnun lét loka verksmiðjunni, meðal annars vegna kvartana íbúa í nærumhverfi yfir mengun.
Í svari frá United Silicon sem barst Kjarnanum í dag vegna fyrirspurnar um framlengingu greiðslustöðvunarinnar segir að á því tímabili sem liðið er frá því að hún var samþykkt upphaflega hafi verið lögð mikil vinna verið lögð í nauðsynlegar greiningar á starfsemi United Silicon og farið yfir leiðir til úrbóta. „Arion banki hefur fjármagnað þá vinnu sem og aðra starfsemi félagsins. Niðurstaða tæknilegra úttekta felur í sér umtalsverða fjárfestingaþörf í starfsemi verksmiðjunnar. Þá hefur bókhaldsrannsókn leitt í ljós meint fjármunabrot fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins. Meint brot hafa verið kærð til héraðssaksóknara og eru þau í rannsókn þar. Um sextíu manns eru að störfum hjá verksmiðjunni en frá því framleiðsla var stöðvuð í byrjun september hefur starfsfólkið meðal annars sinnt viðhaldi og tíminn verið nýttur í að styrkja það í störfum.“
Mikið tap Arion og lífeyrissjóða
United Silicon glímir við mikla rekstrarerfiðleika og mikil óvissa ríkir um hvort félagið geti haldið áfram rekstri. Hluthafar og kröfuhafar félagsins hafa þurft að afskrifa stórar upphæðir vegna United Silicon það sem af er þessu ári. Arion banki hefur til að mynda þegar afskrifað 4,8 milljarða króna vegna verkefnisins. Bankinn hefur að mestu tekið yfir hlutafé en útistandandi skuldbindingar nema ennþá 5,4 milljörðum, samkvæmt síðasta birta uppgjöri bankans. Arion banki hefur auk þess ábyrgst reksturinn á greiðslustöðvunartímanum en hann hefur borgað um 200 milljónir króna á mánuði vegna hans, frá því greiðslustöðvunartíminn hófst í ágúst.
Þá setti lífeyrissjóðurinn Festa 875 milljónir króna í United Silicon. Hann hefur einnig framkvæmt varúðarniðurfærslu vegna verkefnisins.
Í rannsókn
Fyrrverandi forstjóri og forsprakki United Silicon, Magnús Garðarson, hefur verið kærður til embættis Héraðssaksóknara. Stjórn United Silicon gerði það í samráði við lögmann félagsins og aðstoðarmann í greiðslustöðvun, og send kæru til Héraðssaksóknara um mögulega refsiverða háttsemi Magnúsar.
Í tilkynningu segir að kæran byggi á „grun um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014 og er lögð fram í samráði við aðra hagsmunaaðila. Upplýsingarnar sem nú koma fram eru afrakstur af vinnu við endurskipulagningu félagsins sem leidd hefur verið af nýrri stjórn sem tók við í febrúar. Hinn grunaði hefur enga aðkomu haft að rekstri eða stjórnun félagsins síðan í mars. Stjórn félagsins mun vinna með yfirvöldum að rannsókn málsins svo að upplýsa megi það sem fyrst.“ Eru upphæðir sagðar hlaupa hundruð milljóna króna.
Magnús hefur sjálfur neitað alfarið sök.