Ríkissaksóknari telur að álitamál séu um hvort tveir dómarar hafi verið hæfir til að dæma í máli fyrrverandi stjórnenda Landsbankans vegna hlutabréfaeignar þeirra í bankanum.
Í málinu sem um ræðir voru Sigurjón Þ. Árnason og tveir aðrir fyrrverandi stjórnendur Landsbankans dæmdir í fangelsi. Hinn 8. október 2015 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í svokölluðu Imon-máli og dæmdi þá seka.
Með dómi Hæstaréttar í öðru máli hinn 4. febrúar 2016 voru Sigurjón og þrír aðrir fyrrverandi starfsmenn Landsbankans svo sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun. Á meðal þeirra dómara sem dæmdu í báðum þessum málum í Hætsarétti voru Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson.
Um ári síðar var greint frá því að þeir Eiríkur og Viðar Már hefðu átt hlutabréf í Landsbanka Íslands fyrir banka- og gjaldeyrishrunið.
DV greindi frá því 9. desember í fyrra að samanlagt tap þeirra vegna hlutafjáreignar sinnar í Landsbankanum hefði numið 11 milljónum króna. Þetta eru upplýsingar sem lágu ekki fyrir þegar kveðnir voru upp dómar í þessum málum.
Í bréfi ríkissaskóknara, sem er undirritað af Helga Magnúsi Gunnarssyni vararíkissaksóknara, segir meðal annars, samkvæmt frétt Vísis: „Ef að endurupptökunefnd á að fjalla um vanhæfi umræddra tveggja dómara til að taka sæti í dómnum verður það ekki gert nema með því að nefndin taki upp hjá sér að komast að annarri niðurstöðu um hæfi dómaranna, en þeir komust að sjálfir þegar þeir tóku sæti í dómnum.“
Beiðni Sigurjóns Þ. Árnasonar um endurupptöku framangreindra mála hefur ekki verið afgreidd af endurupptökunefnd ennþá, segir í fréttinni.