Dómnefndin sem fjallar um hæfni umsækjenda um héraðsdómaraembætti hefur ekki lokið störfum, segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans. Forsætisráðuneytið setti Guðlaug Þór Þórðarson sem dómsmálaráðherra til að fara með málið eftir að Sigríður Á. Andersen vék sæti í málinu.
Ráðherra mun skipa í embættin í þessum mánuði enda á skipun dómaranna að taka gildi 1. janúar á næsta ári, segir í svari ráðuneytisins.
Dómsmálaráðuneytinu bárust 41 umsókn um 8 stöður héraðsdómara sem auglýstar voru lausar til umsóknar 1. september síðastliðinn. Umsóknarfrestur rann út þann 18. september.
Í tilkynningu sem kom frá ráðuneytinu í september síðastliðnum var greint frá því að dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen hefði ákveðið að víkja sæti í málinu vegna umsóknar Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns. Taldi hún að fyrir hendi væru aðstæður sem væru til þess fallnar að umsækjendur drægju óhlutdrægni hennar í efa. Óskaði hún því eftir því við forsætisráðherra að öðrum ráðherra í ríkisstjórninni yrði falin meðferð málsins.
Ástæðan fyrir því að umsókn Ástráðs hafði áhrif á hæfni ráðherrans er sú að Ástráður hefur átt í málaferlum við ríkið vegna skipunar ráðherra á dómurum við Landsrétt.