Samkomulag hefur náðst milli Kjarnans miðla, móðurfélags Kjarnans, og Seðlabanka Íslands um dómsátt í máli sem Kjarninn höfðaði á hendur bankanum í lok október. Í því fór Kjarninn fram á að ógild yrði með dómi sú ákvörðun bankans að hafna kröfu Kjarnans um aðgang að hljóðritun og afritum af símtali milli þáverandi formanns Seðlabanka Íslands, Davíðs Oddssonar, og þáverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, sem átti sér stað 6. október 2008.
Enn fremur gerði Kjarninn kröfu um að viðurkenndur sé réttur Kjarnans til aðgangs að hljóðritun og afritum af símtalinu. Í því er rætt um veitingu 500 milljón evra neyðarláns til Kaupþings sem kostaði skattgreiðendur á endanum 35 milljarða króna.
Í dómsáttinni, sem lögð verður fram við næstu fyrirtöku málsins, segir að fyrir liggi „að endurrit af símtali því sem stefnandi krefst aðgangs að í máli þessu frá stefna birtist í Morgunblaðinu eftir þingsetningu málsins þ.e. 18. nóvember sl. Eru því ekki efni til þess lengur að synja stefnanda um afhendingu þess. Stefndi mun því afhenda það til stefnanda. Í þeirri athöfn felst engin viðurkenning á réttmæti málatilbúnaðar stefnanda í málinu.“
Hvor málsaðili ber sinn málskostnað vegna reksturs málsins samkvæmt sáttinni. Hljóðritun af símtalinu verður ekki afhent.
Kjarninn mun fá endurritið afhent í næstu viku og mun í kjölfarið birta það samdægurs.
Réttur fjölmiðla til að upplýsa
Kjarninn óskaði eftir því með tölvupósti þann 6. september 2017 að fá aðgang að hljóðrituninni. Tilgangurinn var að upplýsa almenning um liðna atburði og vegna þess að framundan var birting á tveimur skýrslum, þar af önnur sem unnin er af Seðlabankanum, þar sem atburðir tengdir símtalinu verða til umfjöllunar. Beiðnin var rökstudd með því að um væri að ræða einn þýðingarmesta atburð í nútíma hagsögu sem hefði haft í för með sér afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskan almenning. Seðlabankinn hafnaði beiðninni þann 14. september síðastliðinn og byggði þá ákvörðun einvörðungu á því að þagnarskylda hvíldi yfir umræddum upplýsingum.
Hægt er að lesa stefnuna í heild sinni hér.
Tók til varna en símtalið svo birt
Seðlabanki Íslands ákvað að taka til varna í málinu og var það þingfest. Áður en kom að fyrirtöku þess gerðist það hins vegar að Morgunblaðið birti afrit af símtalinu. Davíð Oddsson er í dag ritstjóri Morgunblaðsins og þar er símtalið birt í heild sinni. Um málið er einnig fjallað í forsíðufrétt og þar er því haldið fram að hvorki Davíð né Geir hafi vitað að símtalið var tekið upp.
Hægt er að lesa frétt um þá birtingu hér.
Seðlabankinn hefur ekki svarað því hvort það verði rannsakað hvernig símtalið rataði til Morgunblaðsins.