Hátt í 40 konur úr hinum ýmsu geirum íslensks samfélags koma fram á #Metoo viðburðum víða um land í dag þar sem lesnar verða frásagnir íslenskra kvenna í tengslum við þessa áhrifamiklu byltingu. Viðburðirnir fara fram í Borgarleikhúsinu, Samkomuhúsinu á Akureyri og á Seyðisfirði.
Á Nýja sviði Borgarleikhússins stígur meðal annars Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á stokk ásamt konum úr heimi leiklista, íþrótta og stjórnmála.
Viðburðurinn hófst klukkan fjögur og er hægt að horfa á hann í beinni útsendingu á vef Vísis. Hann stendur enn yfir og hafa áhrifamiklar sögur verið lesnar upp sem íslenskar konur hafa deilt með íslensku samfélagi að undanförnu.
Meðal þeirra sem koma fram í Borgarleikhúsinu eru auk Katrínar þær Steinunn Valdís Óskarsdóttir fyrrum borgarstjóri, leikkonurnar Kristbjörg Kjeld, Halldóra Geirharðsdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir, tónlistarkonan Hildur, Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingiskona, Hrafnhildur Lúthersdóttir ólympíufari, Björk Eiðsdóttir ritstjóri, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ritstjóri og fleiri.