Breski iðnhönnuðurinn Jonathan Ive er kominn aftur inn í stjórnendateymi Apple og mun stýra hönnun og notendaupplifun fyrirtækisins.
Í umfjöllun Wall Street Journal kemur fram að miklar vonir séu bundnar við að Ive takist að efla nýsköpunina hjá Apple, en fyrirtækið hefur verið gagnrýnt töluvert á undanförnum árum fyrir að hafa ekki verið nægilega framsækið þegar kemur að nýsköpun.
Ive hóf fyrst störf hjá Apple árið 1992 og hefur æ síðan komið að hönnun á ýmsum þekktustu vörum Apple. Hann vann náið með Steve Jobs heitnum, þegar hann var við stjórnvölinn hjá fyrirtækinu, en fyrsta varan sem hann hannaði að fullu sjálfur var iMac tölvan.
Ive hefur á undanförnum árum unnið að hönnun á höfuðstöðvum Apple en þær verða teknar að fullu í notkun á næsta ári.
Verkefnið er risavaxið, en heildarkostnaður er metinn rúmlega fimm milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur 530 milljörðum króna.
Sir Jonathan Ive is back in charge of Apple’s design team https://t.co/vxr09M6G9w pic.twitter.com/e3EKwicazf
— Financial Times (@FT) December 8, 2017
Ive þykir með áhrifamestu hönnuðum samtímans og var hann meðal annars aðlaður af Elísabetu Bretlandsdrottningu árið 2012, fyrir áhrif sín á sviði hönnunar, og getur því kallað sig Sir. Jonathan Ive. Hann er menntaður í iðnhönnun, en hefur sjálfur sagt að hans mesti áhrifavaldur í hönnun sé faðir hans, Michael Ive, en hann starfaði sem silfursmiður.
Óhætt er að segja fjárhagur Apple sé traustur. Þetta verðmætasta félag heims er nú metið á 870 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 90 þúsund milljarða króna.
Fyrirtækið er með fulla vasa fjár, eftir ótrúlegt gengi á undanförnum áratug. Samtals á fyrirtækið 270 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 30 þúsund milljarða króna, í lausu fé frá rekstri.