Ísland stendur sig enn og aftur verst í því að innleiða EES tilskipanir sem EFTA ríkin hafa skuldbundið sig til að innleiða í lög innan tímamarka. Þetta kemur fram í frammistöðumati frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA, sem birtist í haust.
Í matinu segir að Ísland þurfi að grípa til aðgerða til þess að laga mikinn innleiðingarhalla.
Í frétt Kjarnans sem birtist í febrúar á þessu ári segir að eftir að frammistaða Íslands í því að innleiða reglur frá Evrópu hafði batnað stöðugt frá nóvember 2013 til nóvember 2015 hafi frammistaðan versnað í tveimur frammistöðumötum í röð. Hún stendur nú í stað.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans til ESA segir að næsta frammistöðumat muni birtast rétt eftir áramót. Jafnframt sé áhersla ESA ekki á einhver sérstöð mál heldur á mikilvægi þess að innleiða reglurnar innan þeirra tímamarka sem hafa veirð sett.
Nú eru aftur 18 tilskipanir sem Ísland hefur ekki innleitt innan tímamarka, sem gerir innleiðingarhalla upp á 2,2 prósent, sami halli og við síðustu könnun. Hin ríkin í EFTA, Liechtenstein og Noregur, standa sig mun betur. Innleiðingarhalli Noregs er 0,2 prósent og Liechtenstein er með 1,2 prósent halla.
Upptaka EES gerða er grundvöllur fyrir aðgengi Íslands og hinna EES ríkjanna að innri markaði Evrópusambandsins. Það að Ísland standi sig svona illa í innleiðingum þýðir að íslenskir ríkisborgarar, og ríkisborgarar innan alls EES svæðisins, njóta ekki að fullu kosta innri markaðarins.
Í þar síðasta frammistöðumati ESA, frá því um mitt síðasta ár, var innleiðingarhallinn 2 prósent. Þá sagði ESA: „Þegar EES-ríki innleiðir ekki tilskipun innri markaðarins á réttum tíma fá einstaklingar og fyrirtæki ekki notið þeirra réttinda sem hún felur í sér. Íslensk fyrirtæki kunna til dæmis að útilokast frá aðgangi að innri markaðinum ef samræmdar tæknilegar reglur eru ekki innleiddar. Því lengur sem innleiðing dregst, því alvarlegri geta afleiðingarnar orðið.“
ESA hefur ítrekað sagt að Ísland þurfi að standa sig miklu betur til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart innleiðingu á lögum og reglum EES samningins.