Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Nikki Haley, segir að allar konur sem saki karla um kynferðislega áreitni eða ósæmilega hegðun í sinn garð, eigi skilið að fá áheyrn og réttláta málsmeðferð.
Hún segist stolt af #Metoo byltingunni og þeim sögum sem konur um allan heim hafa komið fram með á undanförnum vikum og mánuðum, þar sem ýmsum birtingarmyndum ofbeldis og ósæmilegrar hegðunar gagnvart konum er lýst og þeim hafnað.
Þetta kom fram í viðtali við Haley við CBS sjónvarpsstöðina, en þegar talið barst að Bandaríkjaforseta, Donald Trump, og þeim fjölmörgu konum sem hafa ásakað hann um kynferðislega áreitni og ósæmilega hegðun, í gegnum tíðina, sagði hún að það ætti að sjálfsögðu líka við um þær eins og aðrar; þær ættu það skilið að á þær yrði hlustað og unnið úr málum þeirra með réttum hætti.
Nikki Haley on Pres. Trump accusers: Women who accuse anyone "should be heard" and "dealt with" https://t.co/M4K3rKwnaV pic.twitter.com/d40KBgLr4m
— CBS News (@CBSNews) December 11, 2017
#Metoo byltingin hefur nú þegar haft gífurleg áhrif um allan heim. Konur, úr öllum stéttum og stigum samfélaga, hafa stigið fram og sýnt samstöðu, þar sem ósæmilegri hegðun - kynferðislegri og karlrembulegri - er hafnað og úrbóta krafist.
Á Íslandi hafa konur sagt sögur sínar úr mörgum geirum samfélagsins, og sýnt samstöðu með þeim sem hafa orðið fyrir órétti og ofbeldi af hálfu karla. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var ein þeirra sem las upp sögu á samstöðufundi í Borgarleikhúsinu í gær.