Frá árinu 1997 hefur eldsneytisnotkun í sjávarútvegi minnkað að meðaltali um rúm 4 prósent ári og var ársnotkun eldsneytis í sjávarútvegi árið 2016 sú lægsta frá árinu 1990, bæði frá fiskiskipum og fiskimjölsverksmiðjum.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem birtist í morgun.
Samkvæmt skýrsluhöfundum hefur útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi minnkað
mikið. „Með einföldun má segja að sjávarútvegurinn hafi, fyrir sitt leyti, náð markmiði Parísarsamkomulagsins. Að sjálfsögðu er sjávarútvegur ekki einangruð stærð í loftslagsmálum. Heimurinn er einn að þessu leyti. Hvað sem því líður er greinilegt að sjávarútvegur á Íslandi hefur náð mjög góðum árangri á liðnum árum,“ segir í skýrslunni.
Jafnframt kemur fram að tækninýjungar af ýmsu tagi og aðrir orkugjafar muni hjálpa til við að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda í íslenskum sjávarútvegi á komandi árum.
Áætlað er að sjávarútvegur dragi úr eldsneytisnotkun um 134 þúsund tonn á tímabilinu 1990 til 2030, segir í niðurstöðukafla skýrslunnar. Einnig kemur fram að sterkir fiskistofnar, framfarir í veiðum og betra skipulag veiða hafi leitt til verulega minni olíunotkunar í sjávarútvegi og þar með losun gróðurhúsalofttegunda.
Eldneytisnotkun heldur áfram að dragast saman
Eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hefur í heild minnkað um tæplega 43 prósent frá árinu 1990 til ársins 2016 og áætlað er að sjávarútvegur dragi úr eldsneytisnotkun um 134 þúsund tonn á tímabilinu 1990 til 2030. Þá verði fiskibræðsla nær eingöngu knúin með rafmagni og raforkuframleiðsla um borð í fiskiskipum með ljósavél sem liggja í höfn heyri til undantekninga. Gangi þetta eftir mun eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hafa dregist saman um 54 prósent á tímabilinu, segir enn fremur í skýrslunni.
Fram til ársins 2030 er reiknað með að olíunotkun í sjávarútvegi dragist saman um 19 prósent.
Losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi hefur farið minnkandi ár frá ári síðan 1990 en þá var hlutfallið 19,5 prósent af heildarlosun Íslands. Árið 2007 var hlutfallið komið niður í 13 prósent og árið 2014 í 9,7 prósent.
Að mati skýrsluhöfunda hefur sjávarútvegur á Íslandi þegar náð markmiði Parísarsamkomulagsins vegna fiskmjöls og lýsisframleiðslu og er kominn vel á veg með að ná þessu markmiði vegna veiða.
Fjárfestingarþörf í fiskiskipum fram til ársins 2030 er metin um 180 milljarðar króna. Nýrri og tæknivæddari skip munu draga enn frekar úr umhverfisáhrifum sjávarútvegs.
Hagkvæmnisútreikningar sýna að hagstæðara er að nota rafmagn úr landi þegar skip eru í höfn, frekar en að keyra ljósavélar sem ganga fyrir olíu.
Frá árinu 2006 til ársins 2016 hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sent á eigin vegum eða haft milligöngu um endurvinnslu á 8.400 tonnum af veiðarfæraúrgangi.
Miklar breytingar í sjávarútvegi undanfarna áratugi
Fiskiskipafloti landsmanna hefur breyst mikið undanfarna áratugi, segir í skýrslunni. Jafnframt segir að fram yfir aldamót hafi heildarvélarafl fiskiskipa aukist en dregið hafi úr því á liðnum árum. Afli á Íslandsmiðum hafi aukist mikið á síðustu öld en jafnframt hafi verið verulegar sveiflur í veiðinni. Miklar framfarir hafi orðið í skipasmíðum og veiðitækni sem hafa áhrif á eldsneytisnotkun. Ný og öflugri skip hafi leyst eldri loðnubáta og minni togskip af hólmi.
Eldsneytisnotkun sjávarútvegsins var mest á árunum 1996 og 1997 þegar mikil sókn var á fjarlæg mið, eins og til dæmis í Smuguna, segir í skýrslunni.
Eldsneytisnotkun í sjávarútvegi í heild þannig hefur minnkað um 43 prósent frá árinu 1990. Þar af hefur eldsneytisnotkun fiskiskipa minnkað um rúm 35 prósent og fiskimjölsverksmiðja um tæp 84 prósent. Siglingar íslenskra fiskiskipa með afla á erlenda markaði eru nú fátíðar. Íslensk skip sigla í meiriháttar viðhald og endurbætur erlendis og nota þá gjarnan tækifærið til að fylla eldsneytistankana.
„Þessi erlenda eldsneytistaka er ekki með í tölum um eldsneytisnotkun fiskiskipaflotans. Hún er hins vegar mjög lítill hluti af heildarnotkuninni. Ástæður samdráttar í eldsneytisnotkun sjávarútvegs á tímabilinu frá 1990 til 2016 eru einkum hátt olíuverð, minni afli, tækniframfarir sem auka afla á sóknareiningu og samþjöppun í greininni.
Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu og hefur kynnt landsmarkmið um að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent til ársins 2030 miðað við árið 1990. Þannig er lagt á sjávarútveg að minnka notkun jarðefnaeldsneytis á 40 árum um 40 prósent. Sjávarútvegur á Íslandi hefur þegar náð þessu markmiði við framleiðslu á fiskimjöli og lýsi og er kominn vel á veg með að ná því vegna veiða,“ segir í skýrslunni.