Kortavelta erlendra ferðamanna nam 188 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins, eða sem nemur um 23,5 milljörðum á mánuði að meðaltali.
Þetta er langsamlega mesta velta ferðamanna á Íslandi frá því að mælingar á henni hófust, enda hefur vöxturinn í ferðaþjónustunni verið stöðugur. Gert er ráð fyrir að 2,3 milljónir manna heimsæki Ísland á þessu ári, en til samanburðar komu um 450 þúsund ferðamenn til landsins 2010.
Frá þeim tíma hefur ferðaþjónustan margfaldast, og samkvæmt flestum spám greinenda er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti.
Veltan hefur aukist gríðarlega hratt, og er vöxturinn án fordæma í heiminum, sé litið til síðustu ára. Á tveimur árum hefur kortaveltan aukist um 63 prósent, miðað við tölurnar sem Morgunblaðið greindi frá í morgun.
Til að setja hlutina í samhengi við grunnstærðir í efnahagslífinu þá hefur kortavelta ferðamanna verið á svipuðu róli og heildarvelta fólks í fasteignaviðskiptum á höfuðborgarsvæðinu, þegar horft er til meðaltals á mánuði.
WÁ undanförnum sex mánuðum hefur meðaltalsvelta í fasteignaviðskiptum verið á bilinu 6 til 7,1 milljarður króna á viku, eða sem nemur um 24 til ríflega 28 milljarða króna á mánuði. Oft hefur veltan líka verið minni en þetta, og því fyrir neðan meðaltals kortaveltu ferðamanna í mánuði.
Þetta gefur góða vísbendingu um hversu stór hluti af umfangi hagkerfisins hangir saman við eyðslu ferðamanna á landinu.
Spár hafa gert ráð fyrir því að vöxturinn í ferðaþjónustunni haldi áfram á næstu árum, og að fjöldi ferðamanna á ári gæti farið upp fyrir þrjár milljónir á árunum 2019 eða 2020.