Samtök atvinnulífsins segja að vinnuveitendur verði að taka á áreitni og ofbeldi af kynferðislegum toga. Þeir beri ábyrgð á því að bregðast við og þar sér grundvallaratriði að láta brotaþola njóta vafans.
#Metoo átakið hefur opnað upp á gátt umræðu um kynferðislega áreitni og ofbeldi gagnvart konum, en konur í flugi og fjölmiðlum, bættust í gær í hóp stétta þar sem konur hafa deilt sögum þar sem þær hafa verið beittar ofbeldi og ósæmilegri hegðun.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í viðtali við RÚV í gær að það ætti að vera forgangsmál hjá öllum vinnustöðum að tryggja öryggi starfsmanna, og hluti af því snýr að því að konur séu ekki áreittar eða beittar öðru ofbeldi.
Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins er áréttað að sú bylgja sem hefur komið fram að undanförnu sýni að vandinn sé stærri nú en áður var talið. „Áreitni og ofbeldi af kynferðislegum toga hefur lengi verið dulið vandamál á fjölmörgum vinnustöðum. Þolendur hafa átt erfitt með að greina frá brotum sem þeir hafa orðið fyrir enda oft í erfiðri stöðu gagnvart yfirmönnum og samstarfsfólki. Bylgja vitnisburða undanfarið um kynferðisáreitni og ofbeldi hefur leitt í ljós að vandinn er stærri og brotahegðunin algengari en áður var talið. Það er frumskylda atvinnurekenda að senda skýr skilaboð til starfsmanna sinna um að einelti, áreitni og ofbeldi verði ekki liðið,“ segir í tilkynningunni.
Samtökin segja að vinnustaðir verði að skoða vinnustaðamenninguna á hverjum stað, og meta hvernig sé best að bregðast við. „Þá er mikilvægt að stjórnendur skoði vinnustaðamenningu á sínum vinnustöðum og hvernig er hægt að bæta hana, draga úr hættu á særandi framkomu og að málefni þolenda verði í forgangi þegar brot koma upp. Ein meginskylda vinnuveitanda er að tryggja starfsmönnum öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Fyrirtækjum ber að gera áhættumat til að greina þá áhættu sem getur verið fyrir hendi. Í matinu skal koma fram til hvaða aðgerða fyrirtækið hyggst grípa til komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um brot,“ segir í tilkynningunni.