Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík (SPKEF), var í dag dæmdur í 18 mánuða skilorðsbundið fangelsi í Hæstarétti fyrir umboðssvik.
Þá var honum gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins og málsvarnarlaun verjanda síns, samtals 6,1 milljón.
Í dómnum er meðal annars vísað til aldurs Geirmundar og hann hafi ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Með vísna til heilsufars er talið hæfilegt að skilorðsbinda alla refsinguna. „Ákærði er fæddur 1944 og hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þá er nokkuð liðið síðan hann framdi brot sín. Að því virtu og að teknu tilliti heilsufars ákærða verður refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði eins og hann var þar ákveðinn. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir,“ segir í dómnum.
Geirmundur var ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum með lánveitingum til einkahlutafélaga. Fjárhæðirnar í ákærunni nema tæpum átta hundruð milljónum króna. Í ákæru sagði að Geirmundur hefði stefnt fé sparisjóðsins í verulega hættu þegar hann fór út fyrir heimildir til lánveitinga með því að veita einkahlutafélaginu Duggi 100 milljóna króna yfirdráttarlán 16. júní 2008. Afstaða lánanefndar lá ekki fyrir og áhættu- og greiðslumat fór ekki fram. Þá var endurgreiðslan ekki tryggð með nokkrum hætti.
„Það sem hér hefur verið greint getur engu breytt um þau grundvallaratriði að stofnfjárbréfin voru framseld frá B ehf. til I ehf. og færð í verðbréfaskráningu sem eign síðarnefnda félagsins án þess að nokkuð hafi verið að gert til tryggja fyrrnefnda félaginu ráð yfir bréfunum eða tilkall til verðmætis þeirra. I ehf. tilheyrði hvorki B ehf. né Sparisjóðnum A, heldur N sem fór að lögum einn með öll ráð yfir málefnum félagsins. Þótt félagið hefði ekki getað framselt stofnfjárbréfin án samþykkis stjórnar Sparisjóðsins A gat sparisjóðurinn ekki vegna framangreindra aðstæðna einna skipt sér að öðru leyti af afdrifum bréfanna eða málefnum félagsins. Meðal annars hefði hann þannig ekki getað fengið rönd við reist ef N hefði sem eigandi félagsins kosið að framselja alla hluti í því til annarra, hann hefði skuldsett félagið við aðra, lánardrottinn I ehf. hefði leitað fullnustu kröfu með fjárnámi í þessari eign félagsins eða lánardrottinn N hefði leitað fullnustu kröfu á hendur honum með fjárnámi í hlutum hans í félaginu.
Að virtu öllu framangreindu fól framsal stofnfjárbréfanna frá B ehf. til I ehf. í sér verulega fjártjónshættu fyrir fyrrnefnda félagið af völdum ákærða. Hann hefur því gerst sekur um þá háttsemi sem um ræðir í síðari kafla ákæru og réttilega er þar færð til refsiákvæðis,“ segir í dómnum.
Hæstiréttur féllst á inntak ákæru um umboðssvik í niðurstöðu sinni, en í Héraðsdómi Reykjaness var Geirmundur sýknaður af ákærunni.