Fríblaðið Mannlíf kom inn um bréfalúgur íbúa höfuðborgarsvæðisins í þriðja sinn í morgun. Blaðinu er dreift frítt í 80 þúsund eintökum. Um er að ræða samstarfsverkefni útgáfufélagsins Birtings og Kjarnans miðla.
Í Mannlífi er lagt mikið upp úr gæðum efnis úr mörgum áttum. Ritstjórn Kjarnans sér um vinnslu frétta, fréttaskýringa, úttekta, skoðanagreina og fréttatengdra viðtala á meðan að ritstjórnir Gestgjafans, Hús og híbýla og Vikunnar vinna áhugavert og skemmtilegt efni inn í aftari hluta blaðsins. Efnistök eru því afar fjölbreytt.
Í Mannlífi er að finna lífstílstengt efni um heimili, hönnun, ferðalög, mat og drykk í bland við vandaðar fréttaskýringar og viðtöl við áhugavert fólk.
Á meðal efnis í blaði dagsins er viðtal við Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur sem hefur barist ötullega gegn áreitni og ofbeldi, fréttaskýringar um sálfræðiþjónustu sem veitt er í gegnum netið, áhrif lúxusíbúða á hækkun húsnæðisverðs og brottfall kennara úr stéttinni. Þá eru teknar saman tíu staðreyndir um stöðu kvenna á Íslandi, fjallað um nýjar plötuútgáfur, pistlaskrif og það ítarlega rökstutt af hagfræðingi hverju það sé bæði hagkvæmt og eftirsóknarvert að fara út að borða á elliheimili.
Auður Jónsdóttir skrifar óð til Berlínar og Eiríkur S. Hrafnsson, annars stofnenda Greenqloud er í viðtali um dramatíska sögu frumkvöðla sem byggðu upp alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki út frá hugmynd sem í fyrstu þótti brjálæðisleg.