Fanney Birna Jónsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarritstjóri Kjarnans. Hún mun hefja störf í dag. Fanney Birna mun sömuleiðis koma inn í eigendahóp Kjarnans.
Hún er fyrrverandi aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins og hefur undanfarið ár stýrt pólitíska þjóðmálaumræðuþættinum Silfrinu á RÚV ásamt Agli Helgasyni. Fanney Birna mun áfram stýra Silfrinu ásamt Agli.
Fanney Birna verður þriðji starfsmaðurinn sem bætist við hjá Kjarnanum á skömmum tíma. Bára Huld Beck blaðamaður og Grettir Gautason verkefna- og sölustjóri hófu einnig nýverið störf á miðlinum.
Fanney Birna segir það mikinn heiður fyrir sig að ganga til liðs við Kjarnann og samfélagið sem hefur myndast í kringum miðilinn. „Ég er mjög spennt fyrir því að takast á við þetta verkefni og þróa Kjarnann áfram með því öfluga fólki sem þar er fyrir. Íslenskt samfélag þarfnast nauðsynlega sterkra og óháðra fjölmiðla. Á tímum þar sem blaðamönnum fer fækkandi og almannatenglum hratt fjölgandi, ásamt því að valdamestu menn samfélagsins veigra sér ekki við því að vega að heiðri og þannig trausti fjölmiðla, er beittur, gagnrýninn og aðhaldssamur fréttaflutningur ómetanlegur. Ég fagna tækifærinu til þess að fá að leggja mitt lóð á vogarskálarnar í þessum efnum hjá Kjarnanum, sem hefur sýnt að miðillinn er til þess gerður að veita bæði stjórnvöldum og stórfyrirtækjum það aðhald sem er nauðsynlegt í okkar lýðræðissamfélagi.“
Kjarninn rekur fréttavef, gefur út daglegan morgunpóst og heldur úti umfangsmikilli hlaðvarpsþjónustu. Þá gefur Kjarninn út Vísbendingu, vikurit um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun, og heldur úti enskri fréttaþjónustu. Kjarninn er einnig í samstarfi við önnur fjölmiðlafyrirtæki um framleiðslu á efni. Þar ber helst að nefna sjónvarpsþátt Kjarnans á Hringbraut og útgáfu mánaðarlega fríblaðsins Mannlíf sem er gefið út í samstarfi við Birting.