Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra mun ekki segja af sér í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands, sem birtur var fyrr í dag. Þetta kemur fram í svari Laufeyjar Rúnar Ketilsdóttur, aðstoðarmanns dómsmálaráðherra, við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Hæstiréttur birti fyrr í dag niðurstöðu sína í máli sem tveir umsækjendur um stöðu Landsréttardómara höfðu höfðað gegn íslenska ríkinu. Í dómnum kemur fram að Sigríður hafi brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún vék frá hæfnismati dómnefndar um skipun 15 dómara í Landsrétt.
Í dómi hans segir enn fremur að Sigríður hafi að lágmarki átt að gera samanburð á hæfni annars vegar fjögurra umsækjenda sem dómnefndin hafði metið á meðal 15 hæfustu en Sigríður ákvað að gera ekki tillögu um að yrðu skipaðir, og þeirra fjögurra sem hún ákvað frekar að skipa. Það hafi hún ekki gert og gögn málsins bentu ekki til þess að nein slík rannsókn hefði farið fram af hálfu Sigríðar.
Á vef dómsmálaráðuneytisins er haft eftir Sigríði að niðurstaða Hæstaréttar kveði á um að lagðar verði ríkari skyldur á ráðherra að rannsaka málið með sjálfstæðum hætti. „Ég mun af þeim sökum bregðast við þessari niðurstöðu Hæstaréttar með því að setja reglur innan dómsmálaráðuneytisins sem taka á því þegar ráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi aðrar tillögur en þær sem hæfisnefnd leggur til við skipun dómara, eins og honum er heimilt að gera samkvæmt lögum.“
Kjarninn birti ítarlega fréttaskýringu um málið fyrr í dag. Hana má lesa hér.