Stjórnvöld í Austurríki eru komin með áætlun fyrir refsiaðgerðir gegn innflytjendum sem leitast við að halda í eigin menningararf og sem aðlagast þjóðfélaginu ekki nægilega mikið.
Þetta kemur fram í frétt The Indepentent.
Tveir flokkar sitja nú við stjórnvölinn, Þjóðarflokkur Austurríkis (OVP) og Frelsisflokkurinn (FPO). Þeir samþykktu stefnumál um síðustu helgi þess efnis að þeir innflytjendur sem „neita að samlagast“ ættu von á refsiaðgerðum í kjölfarið.
Í fréttinni segir jafnframt að í áætluninni sé styrkur til hælisleitenda lækkaður. Refsiaðgerðir séu hins vegar hægt að taka til baka með því að fjölskyldur vinni sér inn „aðlögunar-bónus“ ef þær eru duglegar að samlagast austurrísku samfélagi.
Áætlunin felur einnig í sér hraðari vinnslu brottvísana úr landi og verður reynt að sporna við myndun annarra menningarlegra samfélaga.
„Við viljum vernda heimaland okkar, Austurríki, sem stað sem fýsilegt sé að búa á með öllum þeim menningarlegum eiginleikum sem landið hefur upp á að bjóða. Í þessu felst að við veljum hverjir geti flutt inn í landið, búið með okkur og að binda endi á ólöglegan innflutning fólks,“ segir í stjórnarsáttmála flokkanna.