Boston er sextugasta borgin til banna einnota plastpoka í Massachusetts í Bandaríkunum. Martin Walsh borgarstjóri Boston skrifaði undir ályktun þess efnis að banna notkun einnota plastpoka og mun hún taka gildi í desember á næsta ári. Til stendur að samskonar bann taki gildi í öllu Massachusetts-ríki.
Þetta kemur fram í frétt Inhabitat í vikunni. Í henni segir að 357 milljón einnota plastpokar hafi verið notaðir í borginni á þessu ári.
Matt O’Malley borgarfulltrúi í Boston var aðalflutningsmaður ályktunarinnar og segir hann að mikil vinna felist í endurvinnslu pokanna hjá starfsmönnum borgarinnar og að 20 tonn af plastpokum fari í svokallað „single-stream recycling“ sem felur í sér að plast, pappír, málmar og önnur efni fara á sama stað og eru ekki flokkuð sérstaklega.
Hann segir jafnframt að einnota plastpokar séu einungis notaðir í um 12 mínútur að jafnaði en áhrif þeirra á stræti borgarinnar og skolpræsi séu varanleg. Þessi umhverfissjónarmið hafi hjálpað til við að sannfæra borgarstjórann að skrifa undir ályktunina.
Þegar bannið tekur gildi munu viðskiptavinir þurfa að borga fimm sent fyrir pappírspoka eða endurvinnanlega poka.
Gagnrýnendur ályktunarinnar segja að hún sé aftur á móti skattur á þá fátæku og hafa þeir lýst yfir óánægju með áformin. Sumir telja þetta vera óþarfa fyrirhöfn fyrir fólk sem er með minna milli handanna.
O’Malley svarar gagnrýninni með því að segjast ætla að vinna með öllum hlutaðeigendum til að standa við loforðið um bannið og til að tryggja íbúum borgarinnar aðgengi að endurvinnanlegum pokum.
Mikil vakning hefur orðið á Íslandi varðandi plastnotkun undanfarin misseri. Í september síðastliðinn stóð hópur kvenna fyrir átakinu Plastlaus september sem var ætlað að vekja fólk til umhugsunar um ofgnótt og skaðsemi plasts í umhverfinu og benda á leiðir til að draga úr notkun á einnota plasti. Samkvæmt aðstandendum átaksins gekk það vonum framar og sagði ein þeirra í viðtali við Kjarnann í október að þær væru hvergi nærri hættar að vekja athygli á málefninu.