Yfirgnæfandi meirihluti aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun sem fordæmir ákvörðun Trump Bandaríkjaforseta um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.
Ísland studdi ályktunina að því er fram kemur á vef RÚV.
Samtals stóðu 128 þjóðir að ályktuninni en það voru Egyptar sem kölluðu eftir því að atkvæði yrðu greidd um hana á allsherjarþinginu. Níu þjóðir greiddu atkvæði gegn henni, að Bandaríkjunum meðtöldum, og 35 þjóðir kusu að sitja hjá.
Umræður um ályktunina standa enn.
Bandaríkin höfðu áður beitt neitunarvaldi á vettvangi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, en 14 af 15 ríkjum, þar sem Bandaríkin voru alveg einangruðu, ályktuðu gegn ákvörðun Bandaríkjanna um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og færa þangað sendiráð landsins.
Eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans í gær, þá sendi Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, ýmsum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna bréf þar sem tekið var fram að Donald Trump Bandaríkjaforseti myndi fylgjast með því hvaða þjóðir myndi ekki styðja ákvörðun Bandaríkjanna. Var tekið fram í bréfinu að því yrði tekið „persónulega“ ef ákvörðun Bandaríkjanna nyti ekki stuðnings.
Þjóðirnar sem greiddu atkvæði gegn ályktuninni gegn ákvörðun Bandaríkjanna, voru, auk Bandaríkjanna: Gvatemala, Hondúras, Ísrael, Marshall-eyjar, Míkrónesía, Nárú, Palá og Tógó, að því er fram kemur á vef RÚV.