Arnaldur Indriðason á mest seldu bók ársins hér á landi, Myrkrið veit. Útlit er fyrir að hún seljist í hátt í þrjátíu þúsund eintökum.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Arnaldur hefur hagnast vel á bókaskrifum sínum undanfarin ár, og til marks um það þá átti félag hans Gilhagi ehf. hreina eign upp á 736 milljónir í lok árs 2015. Hagnaður félagsins nam þá 108 milljónum króna, og 148 milljónum árið þar á undan.
Arnaldur hefur gefið út 21 bók á jafnmörgum árum og þær hafa selst í um hálfri milljón eintaka hér á landi samkvæmt tölum sem Morgunblaðið lét taka saman.
Sala á bókum hans hefur aukist hratt á heimsvísu síðustu ár og nemur nú um 1,1 milljón eintaka á hverju ári. Alls hefur Arnaldur selt um 13 milljónir bóka, að því er fram kemur í umfjöllun um vinsældir bóka hans í Morgunblaðinu í dag.