Launagreiðslur voru á síðasta ári hærri að raunvirði en árið 2007. Þetta er í fyrsta skipti sem það gerist, frá því tímamótaári, þegar efnahagsbólan fyrir hrun fjármálakerfisins náði hámarki.
Í grein Páls Kolbeins rekstrarhagfræðings hjá Ríkisstjóra, í fréttabréfinu Tíund, kemur fram að fyrirtæki og stofnanir hafi greitt 1.231 milljarða króna í laun í fyrra, en það er um 64,5 milljörðum meira en árið 2007, sé raunvirði launagreiðslna borið saman.
Í umfjöllun um skrif Páls í Tíund, í Fréttablaðinu í dag, kemur fram að raunvirði launa hafi rýrnað mikið eftir hrun fjármálakerfisins en allt frá árinu 2010 hafa launagreiðslur farið hækkandi. Frá þeim tíma hefur endurreisn íslensks efnahagslífsins verið afar kröftug og hagvaxtarskeiðið ekki síst borið uppi af miklum vexti ferðaþjónustunnar. Að raunvirði hafa launagreiðslur hækkað um 36 prósent á síðustu sex árum.
Á þessu ári er gert ráð fyrir að ferðaþjónustan skili þjóðarbúinu um 535 milljörðum króna, eða um 40 prósent af öllum gjaldeyristekjum þjóðarbússins. Sá mikli vöxtur sem hefur verið innan hennar á undanförnum árum hefur ýtt undir auknar launagreiðslur, eins og gefur að skilja.
Ríki og sveitarfélög greiddu hæstu fjárhæðina í laun eða ríflega 301 milljarð sem er um 24,5 prósent launa í landinu.