Alls hafa um átta aðilar áhuga á kaupum á verksmiðju United Silicon í Helguvík, samkvæmt heimildum Kjarnans. Að mestu er um að ræða erlenda fagfjárfesta. Afar ólíklegt er að salan nái fram að ganga áður en greiðslustöðvun fyrirtækisins rennur út 22. janúar næstkomandi.
Karen Kjartansdóttir, talsmaður United Silicon, segir að ekki sé setið að formlegum viðræðum og því sé erfitt að segja til um framhaldið. Hún segir að viðræður við áhugasama aðila hefjist að fullu á næstu dögum.
Rekstur kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík var stöðvaður af Umhverfisstofnun þann 1. september síðastliðinn. Frá þeim tíma hefur farið fram ítarleg skoðun á búnaði fyrirtækisins á vegum norska ráðgjafafyrirtækisins Multiconsult.
Kjarninn hefur áður greint frá því að Arion banki hafi afskrifað a.m.k 4,8 milljarða króna vegna verkefnisins. Bankinn hefur að mestu tekið yfir hlutafé í United Silicon en útistandandi skuldbindingar nema enn þá 5,4 milljörðum, samkvæmt síðasta birta uppgjöri bankans. Arion banki hefur auk þess ábyrgst reksturinn á greiðslustöðvunartímanum en hann hefur borgað um 200 milljónir króna á mánuði vegna hans, frá því greiðslustöðvunartíminn hófst í ágúst.