Eftirlit jafnlaunavottunnar verður í höndum Samtaka aðila vinnumarkaðarins. Ef fyrirtæki tryggir kynjunum ekki sömu laun fyrir sömu vinnu, eða að málefnalegar ástæður liggi ekki fyrir um launamunin, innan tímarammans tilkynna samtökin fyrirtækið til Jafnréttisstofu. Hún hefur heimild til að krefja fyrirtækið um allt að 50.000 krónur í dagsektir, verði fyrirtækið ekki að úrbótum.
Vottunaraðili sem vottar jafnlaunakerfi þarf að vera faggiltur og geta framvísað faggildingarskírteini þess til staðfestingar. Tveir aðilar hafa nú heimild til að taka út jafnlaunakerfi og veita jafnlaunavottun en vonir standa til að þeim fjölgi á næstunni. Námskeið verða haldin á vegum velferðarráðuneytisins um vottun jafnlaunakerfa, þá sérstaklega fyrir þá sem vilja öðlast heimild til að votta jafnlaunakerfi samkvæmt jafnlaunastaðlinum.
Lög um jafnlaunavottun tóku gildi um áramótin og er stefnt að því að öll fyrirtæki og stofnanir með 250 starfsmönnum eða fleiri, verða komin með jafnlaunavottun í lok þessa árs. Minni fyrirtæki fá frest til ársins 2021. Markmiðið með vottuninni er að stuðla að því að karlar og konur fái sömu laun fyrir sama starf. Ábyrgðin er fyrirtækisins og er það hlutverk þess að fara yfir verklagsreglur í launamálum sínum.
Til þess að standast kröfu um jafnlaunavottun þarf fyrirtæki að geta sýnt fram á það að karlar og konur fái sömu laun fyrir sambærilega stöðu. Jafnlaunavottunin gildir í mest þrjú ár í senn og er úttekt tekin aftur á fyrirtækinu eftir þann tíma. Standist fyrirtæki ekki enn þá kröfurnar er þeim óheimilt að nota jafnlaunavottunarmerkið áfram.