Smásölu- og tæknirisinn Amazon er sagður vera líklegur til að kaupa verslunarfyrirtækið Target, sem rekur um 1.800 verslanir um öll Bandaríkin.
Target er metið á 36 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 3.800 milljörðum króna. Stutt er síðan Amazon keypti Whole Foods fyrir 13,7 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 1.400 milljörðum króna. Það fyrirtæki er með 470 verslanir í rekstri, í Bandaríkjunum og Evrópu.
Vöxtur Amazon hefur verið gríðarlega mikill en markaðsvirði fyrirtækisins er nú 580 milljarðar Bandaríkjadala, eða tæplega 60 þúsund milljarðar króna.
Jólavertíðin hjá fyrirtækinu sló öll fyrri met, en netverslun færist sífellt í aukana, en á því sviði er Amazon leiðandi.
Kaup félagsins á Whole Foods hafa styrkt fyrirtækið í sessi að mati greinenda, en með kaupunum steig fyrirtækið fyrsta stóra skrefið inn á hefðbundinn verslunarmarkað. Frá upphafi hefur fyrirtækið einblínt á verslun á netinu og með uppbyggingu vildarkjarakerfis hefur fyrirtækið séð tækifæri í því að byggja upp enn meiri þjónustu við áskrifendur sína.
Amazon hefur ekki gefið út nákvæmlega hversu margir eru nú orðnir áskrifendur af (Prime Members) af vildarkjarakerfi fyrirtækisins en greinendur hafa talið að fyrirtækið sé með hátt í 100 milljónir áskrifenda nú þegar, og þeim fjölgar stöðugt.
Whole Foods og Target eiga það sameiginlegt að hafa gert mikið upp úr vildarkjarakerfum og notendaupplýsingum til að dýpka sambandið við viðskiptavini.
Gene Munster, áhrifamikill fjárfestir og stofnandi Loup Ventures, spáir því að Amazon kaupi Target á árinu og setji enn meiri kraft í þróun tækninnar sem býr að baki Amazon Go verslununum, þar sem viðskiptavinir versla án aðkomu starfsfólks eða búðarkassa.
Slík verslun hefur þegar verið sett upp í Seattle en uppsetningu verslana á öðrum stöðum hefur verið frestað, vegna þess að tækniþróuninni er ekki lokið.
Target hefur einnig verið að þróa hjá sér netverslunarmöguleikana og keypti á dögunum sprotafyrirtækið Shipt fyrir 550 milljónir Bandaríkjadala, um 60 milljarða króna, en með kaupunum hyggst félagið byggja upp áreiðanlegra heimsendingarkerfi fyrir netverslun, meðal annars með ferskvörur.