Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Hópnum verður meðal annars falið að taka mið af starfi sem unnið hefur verið í tengslum við opinber heilindi hérlendis og erlendis, til dæmis væntanlegri fimmtu úttektarskýrslu GRECO, sem fjallar meðal annars um vernd gegn spillingu meðal æðstu handhafa framkvæmdavalds.
Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og stjórnarmaður Gagnsæis, verður formaður starfshópsins. Auk hans verða Ólöf Embla Eyjólfsdóttir, MSt í heimspeki, Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri og Sigurður Kristinsson, prófessor í hópnum, sem á að skila skýrslu í síðasta lagi 1. september 2018. Telji hópurinn ástæðu til þá getur hann einnig sett fram afmarkaðar tillögur fyrr.
Samkvæmt fréttatilkynningu er skipan hópsins í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem segir m.a.: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Einn þáttur í því er að yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum. Annar þáttur er breytingar á lögum sem varða vernd uppljóstrara og umbætur í umhverfi stjórnsýslu og viðskipta, meðal annars í takt við ábendingar alþjóðastofnana.“
„Algjörlega vitlausar ákvarðanir“
Jón Ólafsson, sem verður formaður starfshópsins, var gestur sjónvarpsþáttar Kjarnans í október í fyrra. Þar sagði hann að Gagnsæi, sem eru samtök gegn spillingu, hafi lagt áherslu á að hérlendis ríki skilningsleysi á ábyrgð og eðli opinberra embætta, og að það skilningsleysi sé beinlínis átakanlegt. „Það kemur fram í því að stjórnmálamenn eru hvað eftir annað að taka algjörlega vitlausar ákvarðanir um hvernig þeir eiga að umgangast viðkvæm stórmál og spilla þar með trausti fyrir sér og kerfinu í heild sinni. Ég held að í mörgum tilfellum sé það ekki þannig að það sé einhver annarleg sjónarmið að baki heldur meira þrjóska, skilningsleysi og viljaleysi til þess að vinna með samfélaginu, vinna með frjálsum félagasamtökum til að finna leiðirnar til að bæta kerfið.“
Í könnun Gallup á trausti til stofnanna, sem framkvæmd er einu sinni á ári, sést að traust til stjórnmála og stjórnsýslu er lítið. Síðast þegar könnunin var framkvæmd, í upphafi árs 2017, þá kom í ljós að 22 prósent aðspurðra treystu Alþingi og 19 prósent treystu borgarstjórn Reykjavíkur. Fjármálaeftirlitið naut trausts 19 prósents aðspurðra og 43 prósent sögðust treysta dómskerfinu.