Jakob R. Möller, formaður dómnefndar sem fjallaði um hæfi umsækjenda um héraðsdómaraembætti, segir að frestur nefndarinnar til að skila umsögn sinni hafi ekki byrjað fyrr en 13. október 2017, þegar nefndin var fullskipuð. Því hafi sex vikna frestur hennar til að skila umsögn ekki verið liðinn fyrr en 24. nóvember 2017. Auk þess sé gert ráð fyrir því í reglum um starfsemi dómnefndarinnar að frestur hennar til að skila umsögn geti orðið lengri ef sérstakar aðstæður valda því, svo sem mikill fjöldi umsækjenda. Í þessu tilfelli hafi umsækjendur verið 41, eða verulega mun fleiri en áður þegar embætti dómara hafa verið auglýst til umsóknar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra, skipaði í dag þá átta sem dómnefndin hafði talið hæfasta í embætti héraðsdómara í átta dómaraembætti.
Að lokinni skipun sendi hann bréf til Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra þar sem hann kom á framfæri athugasemdum um verklag og reglur um veitingu dómaraembætta. Í bréfinu segir meðal annars: „Auglýsing fyrir umræddar stöður var birt 1. september 2017 og rann umsóknarfrestur út 18. sama mánaðar. Samkvæmt 9. gr. reglna nr. 620/2010 átti dómnefndin að skila um sögn um umsækjendur innan sex vikna frá þeim tíma, eða 30. október sama ár. Nefndin skilaði hins vegar ekki umsögn sinni fyrr en 22. desember 2017, eða rúmum þremur mánuðum eftir að umsóknarfrestur rann út.“
Að sögn Jakobs var dómnefndin ekki fullskipuð fyrr en 13. október og því voru sex vikur ekki liðnar frá því að henni bárust umsóknirnar fyrr en 24. nóvember. „Umsækjendur voru nú 41, eða til verulegra muna fleiri en fyrr og skýrir það að mestu töf á afgreiðslu umsagnar. Fleira kom þó til, sem settur dómsmálaráðherra getur ekki um, sjálfsagt af skiljanlegum ástæðum,“ segir Jakob.