Ólympíuandinn virðist vera að spila lykilhlutverk í því að liðka fyrir samskiptum Norður-Kóreu og Suður-Kóreu. Norður-Kórea hefur ákveðið að senda lið til keppni á vetrarólympíuleikana sem hefjast í Suður-Kóreu í febrúar, en samkvæmt frásögn breska ríkisútvarpsins BBC voru viðræðurnar á milli landanna, vegna þátttöku á leikunum, teknar alvarlega og voru þær jafnframt þær fyrstu í tvö ár.
Norður-Kórea mun senda keppnisfólk, opinbera sendiherra og stuðningsfólk, af því er fram kemur í umfjöllun BBC.
Mikil spenna hefur verið á Kóreuskaga síðustu árin vegna tilrauna Norður-Kóreu með langdrægar flaugar, en þeim hefur meðal annars ítrekað verið skotið inn í lögsögu Suður-Kóreu og Japan, þó þær hafi endað á hafi úti.
South Korea says will consider temporary lifting of sanctions against North Korea to facilitate Winter Olympics participation https://t.co/Wi5mH0Q8Ss pic.twitter.com/A2FjjGw6Z1
— Reuters Top News (@Reuters) January 9, 2018
Síðustu efnahagsþvinganir Sameinuðu þjóðanna voru þær, að hefta 90 prósent af olíflutningum til Norður-Kóreu, og koma þannig í veg fyrir að annars verulega laskað hagkerfi landsins geti virkað eðlilega.
Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa sagt þessa þvinganir jafngilda stríðsyfirlýsingu og hafa krafist þess að af þeim verði látið. Allar þjóðirnar fimmtán sem eiga aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna studdu þvinganirnar.
Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur sagt að tilraunum með kjarnorkuvopn muni ekki linna, alveg sama hvað aðrar þjóðir - með Bandaríkin í broddi fylkingar - segi. Þær séu hluti af varnarstefnu landsins.