Meira en fjórðungur landsmanna telur sig hafa séð eða upplifað afleiðingar loftslagsbreytinga í sínu sveitarfélagi eða 44 prósent. Þetta kemur fram í nýrri umhverfiskönnun Gallup.
Á austurlandi eru þeir flestir sem telja sig hafa séð eða upplifað breytingar eða 60 prósent, fæstir á Vestfjörðum eða 39 prósent.
Meira en 60 prósent landsmanna hafa upplifað hærra hitastig sem þeir telja vera afleiðing loftslagsbreytinga, 59 prósent upplifa að snjór sé minni í sínu sveitarfélagi og 58 prósent sjá breytingar á upphafi og lengd árstíða.
Þá hefur helmingur upplifað breytingar á dýra- og/eða plöntulífi og 41 prósent upplifa fleiri storma eða ofsaveður.
Gallup spurði hvaða aðgerðir fólki fyndist hið opinbera ætti að styðja sérstaklega við þegar komi að loftslagsmálum. 48 prósent styðja aðgerðir sem stuðla að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hjá fyrirtækjum og bæta orkunýtingu þeirra en 37 prósent vill láta þróa umhverfisvæna orkugjafa. Rúmur þriðjungur vill efla almenningssamgöngur eða 36 prósent og 32 prósent vill auka enn frekar á skattaívilnanir af kaupum og notkun á rafmagnsbílum.
Alls eru 66 prósent landsmanna mjög eða frekar sammála því að íslenskir stjórnmálamenn geri of lítið til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og 60 prósent þeirra eru mjög eða frekar sammála því að hafa áhyggjur af þeim afleiðingum sem loftslagsbreytingar geta haft á þá og fjölskyldu þeirra.
Töluverð áhersla er lögð á umhverfis- og loftslagsmál í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar er sagt að leiðarljós loftslagsstefnu Íslands er stefnumið Parísarsamkomulagsins og vill hún gera betur en þar er gert ráð fyrir og stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Því markmiði skal náð með varanlegum samdrætti í losun gróðurhúsa en einnig með breyttri landnotkun í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla og með hliðsjón af vistkerfisnálgun og skipulagssjónarmiðum.
Styðja á við atvinnugreinar, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög í þeirri viðleitni að setja sér loftslagsmarkmið. Stefnt er að því að allar stærri áætlanir ríkisins verði metnar út frá loftslagsmarkmiðum.