Fréttastraumur (News Feed) fólks á Facebook mun taka miklum breytingum á næstunni, og mun hann fyrst og fremst endurspegla það sem vinir og fjölskyldumeðlimir notenda hafa að segja.
Minna mun fara fyrir mynböndum og efni frá hinum ýmsu frétta- og efnisveitum, eins og reyndin er nú og hefur færst verulega í aukana á undanförnum árum.
Óhætt er að segja að Facebook hafi verið mikið til umræðu að undanförnu, ekki síst vegna þess hve fyrirferðamikill samfélagsmiðillinn er orðinn í lífi fólks, en notendur hans eru nú um tveir milljarðar um allan heim, eða sem nemur tæplega 30 prósent af öllum íbúum jarðar.
Í umfjöllun New York Times segir Zuckerberg að Facebook þurfi að endurskilgreina kerfi sitt. „Við viljum að vörur okkar séu ekki aðeins til skemmtunar, heldur séu góðar fyrir fólk,“ segir Zuckerberg.
Markmiðið með breytingunum er ekki síst það, að fólk finni fyrir meiri jákvæðni þegar það skoða fréttastrauminn sinn, að því er segir í umfjöllun New York Times.
https://twitter.com/businessinsider/status/951624282290970626
Spjótin hafa í vaxandi mæli beinst að Facebook að undanförnu, ekki síst vegna þess hve miðillinn er orðinn áhrifamikill og hvernig hagsmunaaðilar, hvort sem er í stjórnmálum eða á örðum vettvangi, hafa geta nýtt sér fréttastrauminn sem notendurnir tengjast til að koma ýmsum á framfæri, svo sem fölskum fréttum og áróðri.
Zuckerberg hefur opinberlega beðist afsökunar á því að Facebook hafi ekki vandað sig nægilega, þegar kemur að uppbyggingu á fréttastraumnum og hvernig upplýsingar flæða milli fólks á þessum áhrifamikla samfélagsmiðli. Hann hefur einnig sagt, að honum finnist það leitt, ef fólki telji að Facebook ali á sundrungu í samfélagslegri umræðu, og vill halda áfram að breyta hlutum til hins betra.