Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands frá 8. desember um að vísa frá dómi skaðabótakröfu Samtaka sparifjáreigenda á hendur Ólafi Ólafssyni og fjórum fyrrverandi stjórnendum Kaupþings banka, þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni, Ingólfi Helgasyni og Magnúsi Guðmundssyni.
Í málinu kröfðust samtökin liðlega 900 milljóna króna vegna tjóns sem þau töldu að stefndu hefðu valdið Stapa lífeyrissjóði, meðal annars með meintri markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi. Stapi lífeyrissjóður hafði framselt samtökunum bótakröfu sína í málinu.
Ólafur var einn stærsti hluthafi Kaupþings fyrir fall bankans með tæpan 10 prósent hlut, en hinir fjórir voru allir æðstu stjórnendur bankans. Hreiðar Már var forstjóri, Sigurður stjórnarformaður, Ingólfur forstjóri bankans á Íslandi, og Magnús forstjóri Kaupþings í Lúxemborg. Þeir hafa allir hlotið dóma vegna lögbrota í starfsemi Kaupþingis, meðal annars fyrir
Málið var meðal annars byggt á því að Kaupþingsmenn hefðu með markaðsmisnotkun haldið uppi gengi bréfa Kaupþings, og þannig valdið hluthöfum og markaðnum tjóni. Hæstiréttur féllst á það, að aðgerðir Kaupþingsmanna, sem dómar hafa fallið vegna, hefðu fullt sönnunargildi í máli sem þessu. En málið er sagt vanreifað og ekki gögnum stutt, í vegamiklum atriðum.
Í umfjöllun um bótaábyrgð er reifunin sérstaklega sögð annmörkum háð. „Af þeim ástæðum, sem hér voru raktar, er reifun sóknaraðila á atriðum varðandi fjárhæð aðalkröfu hans háð verulegum annmörkum. Fram hjá þeim annmörkum yrði ekki komist með því að ákveða sóknaraðila „skaðabætur að álitum“, svo sem hann krefst til vara, enda yrði slíkt ekki fært að öðrum skilyrðum fullnægðum nema fyrir lægi á hvaða grundvelli áætla ætti slíkar bætur,“ segir í dómnum.
Í tilkynningu frá Ólafi Ólafssyni, spyr hann hversu lengi lögmenn eiga að geta komist upp með það að búa sér til vinnu. „Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Samtaka sparifjáreigenda, lét hafa eftir sér þegar niðurstaða héraðsdóms lá fyrir að höfðað yrði nýtt mál kæmist Hæstiréttur að sömu niðurstöðu. Það er vitanlega réttur allra að leita til dómstóla. Hins vegar liggur þegar fyrir að enginn grundvöllur var fyrir ásökunum sem stefnan byggði á. Þá má velta því fyrir sér hversu lengi lögmenn komast upp með að búa sér til vinnu með kaupum á kröfum og málsóknum sem engu skila,“ segir Ólafur.
Dómarar í málinu voru í Hæstarétti Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.