Rio Tinto hefur selt álver sitt í Dunkirk í Frakklandi til manns að nafni Sanjeev Gupta. Gupta hefur að sögn Financial Times sýnt áhuga á að kaupa einnig álver fyrirtækisins í Straumsvík sem og álstarfsemi þess við Kyrrahafið fyrir meira en tvo milljarða dollara.
Fréttir bárust af því í september síðastliðnum að Rio Tinto hefði áform um að selja starfsemi sína í Straumsvík í Hafnarfirði. Rannveig Rist forstjóri fyrirtækisins sagði afkomuna hafa verið slaka en þó farið batnandi með hækkandi álverði. Þó hafi helsta ástæða fyrir mögulegri sölu fyrirtækisins verið sú að framleiðslan í Straumsvík sé sértæk og ólík annarri framleiðslu Rio Tinto auk þess sem fjarlægð frá öðrum fyrirtækjum álrisans sé mikil.
Gupta hefur samkvæmt frétt Financial Times verið umsvifamikill í viðskiptum og byggt upp stórt iðnaðarveldi sem rekur allt frá virkjunum til framleiðslufyrirtækja á sviði bílavarahluta. Hann hefur keypt töluvert af iðnaðarfyrirtækjum í vanda á undanförnum árum og var kallaður „Man of Steel“ í heimildarmynd BBC um viðskiptasögu hans. Hann hefur að sögn þá sýn að endurbyggja iðnað í Bretlandi á endurvinnslu málma og með því að nýta endurvinnanlega orku.
Verðið fyrir söluna á álverinu í Dunkirk liggur ekki fyrir en Gupta keypti starfsemi Rio Tinto í Skotlandi árið 2016 sem var mun minni í sniðum fyrir 410 milljónir dollara. Búast má við að verðmiðinn verði hærri að þessu sinni.