Alls voru 155 fangar að afplána refsingu í íslenskum fangelsum 11. janúar síðastliðinn. Tæplega helmingur þeirra, eða 44 prósent, sem nú sitja í fangelsi hafa áður gert það.
116 voru að afplána óskilorðsbundna refsingu, þrír vararefsingar og 36 voru í gæsluvarðhaldi. Meðallengd þeirra dóma sem viðkomandi voru að afplána var 3,4 ár.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari Fangelsismálastofnunar við fyrirspurn Kjarnans um stöðu mála í íslensku fangelsiskerfi í dag.
560 bíða eftir að komast í afplánun
Flestir þeirra sem afplána dóm og hlotið hafa óskilorðsbundna refsingu gera það fyrir fíkniefnabrot, eða alls 28 prósent fanga. Alls afplána 16 prósent fanga dóma vegna auðgunarbrota og sama hlutfall vegna umferðarlagabrota. Ellefu prósent fanga afplána dóma vegna manndráps eða tilraunar til manndráps, 13 prósent vegna ofbeldisbrota og 14 prósent vegna kynferðisbrota.
Til viðbótar við þá sem þegar eru að afplána bíða 560 manns sem hlotið hafa dóma eftir því að geta hafið afplánun. Sá fjöldi hefur aukist umtalsvert frá árinu 2014, þegar fjöldinn var 475. Í svari Fangelsismálastofnunar kemur fram að töluverður fjöldi þessa hóps muni afplána með samfélagsþjónustu. Sá sem hefur beðið lengst eftir því að sitja af sér, eftir að dómur var felldur, hefur beðið í um það bil fimm ár.
Meðalaldur þeirra fanga sem afplána nú er tæplega 35 ár. Alls hafa 44 prósent þeirra áður hlotið dóma sem höfðu í för með sér afplánun en í svari Fangelsismálastofnunar er tekið fram að skoðunin nái 30 ár aftur í tímann.
Langflestir sem sitja í íslenskum fangelsum eru íslenskir ríkisborgarar. Alls eru 20 erlendir ríkisborgarar í afplánun á Íslandi auk þess sem 18 slíkir sitja í gæsluvarðhaldi.
Stór hluti átti við fíkniefnavanda að etja
Þann 22. júní 2015 svaraði Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, fyrirspurn á Alþingi um afplánun fanga í fangelsi. Í svari hennar kom fram að tæplega 60 prósent þeirra sem sitja í íslenskum fangelsum eigi við vímuefnavanda að etja. Þar sagði einnig að rúmlega 70 prósent þeirra sem sitja í íslenskum fangelsum ættu sér sögu um slíkan vanda. Svarið byggði á óbirtri rannsókn sérfræðinga.