Reykjavíkurborg hefur auglýst eftir háskólanemum sem vilja leigja íbúðir í þjónustukjörnum fyrir aldraða. Í auglýsingu frá velferðarsviði borgarinnar kemur fram að íbúðum fylgi starf sem gangi út á að stuðla að vellíðan og lífsánægju íbúa. Nemarnir geta til dæmis kennt íbúum að nota samfélagsmiðla, haldið námskeið út frá áhugasviði sínu, svo sem á sviði fræða, menningar, hreyfingar og listsköpunar sem og veitt íbúum einstaklingsmiðaðan félagslegan stuðning.
Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs segir í samtali við Kjarnann að um sé að ræða tvær íbúðir sem til ráðstöfunar eru, annars vegar í Lönguhlíð og hins vegar Norðurbrún.
Gert er ráð fyrir 40 tíma vinnu á mánuði, þannig að um er að ræða hlutastarf sem greitt yrði fyrir samkvæmt hefðbundnum kjarasamningum. Að sögn Regínu yrði leigan á íbúðinni á svipuðum nótum og hjá Félagsstofnun stúdenta og því reiknað með að hægt verði að sækja um húsaleigubætur á móti.
„Markmiðið er að blanda saman fólki og hópum, fá meira líf og ráða þannig inn einstaklinga sérstaklega í þetta félagslega samneyti,“ segir Regína.
Hún segir hugmyndina komna frá Hollandi þar sem sambærileg verkefni hafa verið framkvæmd með góðum árangri. Regína segist einnig hafa heyrt af verkefnum í Þýskalandi þar sem nemar hafa lifað og starfað með sambærilegum hætti með fötluðum.
Um er að ræða tilraunaverkefni sem gert er ráð fyrir að standi yfir frá 1. febrúar á þessu ári til 1. júlí 2019.
Regína segir viðbrögðin hafa verið mikil og fyrirséð að það verði vandasamt að velja úr þeim sem sækja um. Borgin verður í samráði við notendaráð þeirra eldri borgara sem búa á þessum stöðum við val á nemendum.
„Við ætlum að nýta áhugasvið einstaklinganna, sem geta þá miðlað því áfram, stækkað það og gefið af sér,“ segir Regína.
Tækifæri fyrir háskólanema í húsnæðisleit.
Posted by Reykjavíkurborg on Tuesday, January 16, 2018