Verðmætasta hlutafélag í heimi, Apple, ætlar sér að fjárfesta fyrir 350 milljarða Bandaríkjadala í Bandaríkjunum á næstu fimm árum, eða sem nemur um 36 þúsund milljörðum króna. Það er upphæð sem nemur meira en fjörtíuföldu virði íslenska hlutabréfamarkaðarins í heild sinni.
Félagið mun greiða hátt í 28 milljarða Bandaríkjadala í skatta vegna þessa, eða sem nemur um 3 þúsund milljörðum króna.
Um þetta tilkynnti fyrirtækið gær, en á undanförnum árum hefur félagið safnað upp miklu lausu fé frá rekstri. Um áramótin nam það um 260 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 27 þúsund milljörðum króna.
Apple says it will inject $350 billion in the US economy over the next 5 years – via @cnbctech https://t.co/TDOg7v1K1G
— CNBC (@CNBC) January 18, 2018
Megnið af þessu fé var geymt utan Bandaríkjanna. Einn af áhrifaþáttunum í því, að færa féð til Bandaríkjanna, eru skattkerfisbreytingarnar sem nýlega fóru í gegnum bandaríska þingið. Í þeim var skattur á fyrirtæki lækkaður úr 35 prósent í 21 prósent.
Samkvæmt breska ríkisútvarpinu BBC hyggst Apple skapa um 20 þúsund ný störf á næstu árum, og fjárfesta meðal annars í gagnaverum og nýjum starfsstöðvum vítt og breitt um Bandaríkin.
Við lokun markaða í gær var virði Apple 919 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 96 þúsund milljörðum króna.