Apple boðar 36 þúsund milljarða fjárfestingar í Bandaríkjunum

Apple ætlar að byggja nýja starfsstöð og skapa í það minnsta 20 þúsund ný störf í Bandaríkjunum.

apple tim cook
Auglýsing

Verð­mætasta hluta­fé­lag í heimi, App­le, ætlar sér að fjár­festa fyrir 350 millj­arða Banda­ríkja­dala í Banda­ríkj­unum á næstu fimm árum, eða sem nemur um 36 þús­und millj­örðum króna. Það er upp­hæð sem nemur meira en fjör­tíu­földu virði íslenska hluta­bréfa­mark­að­ar­ins í heild sinni.

Félagið mun greiða hátt í 28 millj­arða Banda­ríkja­dala í skatta vegna þessa, eða sem nemur um 3 þús­und millj­örðum króna.

Um þetta til­kynnti fyr­ir­tækið gær, en á und­an­förnum árum hefur félagið safnað upp miklu lausu fé frá rekstri. Um ára­mótin nam það um 260 millj­örðum Banda­ríkja­dala, eða sem nemur um 27 þús­und millj­örðum króna. 

AuglýsingMegnið af þessu fé var geymt utan Banda­ríkj­anna. Einn af áhrifa­þátt­unum í því, að færa féð til Banda­ríkj­anna, eru skatt­kerf­is­breyt­ing­arnar sem nýlega fóru í gegnum banda­ríska þing­ið. Í þeim var skattur á fyr­ir­tæki lækk­aður úr 35 pró­sent í 21 pró­sent.

Sam­kvæmt breska rík­is­út­varp­inu BBC hyggst Apple skapa um 20 þús­und ný störf á næstu árum, og fjár­festa meðal ann­ars í gagna­verum og nýjum starfs­stöðvum vítt og breitt um Banda­rík­in.

Við lokun mark­aða í gær var virði Apple 919 millj­arðar Banda­ríkja­dala, eða sem nemur um 96 þús­und millj­örðum króna.

Meira úr sama flokkiErlent