Skipaður hefur verið starfshópur sem samanstendur af fulltrúum frá velferðarráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu og Jafnréttisstofu til að hefja undirbúning að heildarendurskoðun laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnframt kemur starfshópurinn til með að funda með öðrum sérfræðingum eftir þörfum, þar með talið frá aðilum á vinnumarkaði, frjálsum félagasamtökum og fleirum.
Þetta kemur fram í frétt velferðarráðuneytisins sem birtist í vikunni.
„Nú eru tíu ár frá síðustu heildarendurskoðun jafnréttislaga. Jafnrétti kynjanna hefur verið mikið í deiglunni á þessum árum með breyttum viðhorfum og breyttum kröfum sem varða ekki einungis jafnrétti kynjanna heldur mannréttindi og vernd gegn mismunun í enn víðara samhengi,“ segir Ásmundar Einar Daðasonar félags- og jafnréttismálaráðherra í svari við fyrirspurn Kjarnans um ástæður endurskoðunarinnar.
Hann segir enn fremur að ýmsir hafi kallað eftir þessari heildarendurskoðun löggjafarinnar, meðal annars með vísan til þess að endurskoða þurfi stjórnsýslu málaflokksins í ljósi nýrra tíma og breyttra aðstæðna samanber hlutverk Jafnréttisstofu, Jafnréttisráðs og kærunefnd jafnréttismála.
„Fyrirfram ætla ég ekki að gefa mér neitt um niðurstöður endurskoðunarinnar annað en það að endurskoðunin leiði í ljós hvaða breytingar eru nauðsynlegar og æskilegar til að styrkja jafnrétti kynjannan og stöðu mannréttindamála almennt í íslensku samfélagi. Þótt staða Íslands í jafnréttismálum sé góð í alþjóðlegum samanburði er svigrúm til bóta og keppikefli að halda stöðu Íslands sem þjóðar í fremstu röð,“ segir Ásmundur.
Vegna heildarendurskoðunar á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er óskað eftir umsögnum og tillögum að breytingum á gildandi löggjöf frá þeim sem láta sig efni laganna varða og telja þörf fyrir breytingar.
Félags- og jafnréttismálaráðherra kemur auk þess til með að skipa þverpólitíska nefnd sem mun hafa það hlutverk að skila til ráðherra drögum að lagafrumvarpi sem ætlað er að stuðla frekar að jafnrétti kynjanna með aukinni skilvirkni og eflingu úrræða auk tillögu að framtíðarskipan stjórnsýslu jafnréttismála. Gert er ráð fyrir að félags- og jafnréttismálaráðherra leggi frumvarp um breytingu á lögum fyrir 148. löggjafarþing, haustið 2018.
Starfshópurinn hefur ákveðið að undirbúa störf sín með því að óska eftir umsögnum við gildandi löggjöf og tillögum að breytingum með umfjöllun um mikilvægi þeirra. Allir sem láta sig málið varða eru hvattir til að senda inn ábendingar og athugasemdir, segir í frétt ráðuneytisins.