Bogi Nilsson settur ríkissaksóknari hefur staðfest ákvörðun setts héraðssaksóknara í LÖKE-málinu svokallaða að fella niður málið. Um er að ræða kæru tveggja fyrrverandi lögreglumanna á hendur Öldu Hrönn Jóhannesdóttir, þá aðallögfræðingi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Mennirnir kærðu Öldu fyrir að hafa misbeitt valdi í starfi sínu hjá lögreglunni á Suðurnesjum við rannsókn LÖKE-málsins, en kröfðust þess nú að þeirri ákvörðun héraðssaksóknara að ákæra Öldu ekki yrði felld úr gildi, að hún verði ákærð og svipt embætti og að framkvæma ætti nauðsynlegar rannsóknaraðgerðir í málinu.
Í niðurstöðu Boga kemur fram að rannsóknin, sem Alda bar ábyrgð á og framkvæmd var af lögreglunni með vitund og vilja lögreglustjórans á Suðurnesjum, hafi verið óeðlileg eða í andstöðu við lagafyrirmæli, enda háð að höfðu samráði við embætti ríkissaksóknara eða samkvæmt fyrirmælum þess.
Annmarkar á upphafi rannsóknarinnar á hendur kærendunum, fyrrverandi lögreglumönnunum, sem Alda beri aðallega ábyrgð á þykja ekki slíkir að það geti varðað við lög, en sakirnar eru þar að auki fyrndar.
Í niðurstöðunni eru tekin dæmi um annmarka á rannsókninni við upphaf hennar í framhaldi af móttöku ábendingar um meinta háttsemi lögreglumannanna og vina þeirra og við móttöku rannsóknargagnanna sjálfra.