Samtök ungra bænda gagnrýna harðlega þá ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, að leysa upp samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Þess í stað verður skipaður nýr samráðshópur þar sem fækkað er um nærri helming í hópnum. Með því hverfur ráðherra frá þeirri stefnu að ná skuli víðtækri sátt og skilningi margra aðila um búvörusamninga, eins og nauðsynlegt er.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá SUB sem birtist í morgun.
Í ályktun sem stjórn SUB samþykkti á fundi sínum þann 18. janúar síðastliðinn segir meðal annars að með þessu sé víðtæku samráði hafnað og þess í stað horfið til fortíðar þar sem fáir komi að borðinu. Hvorki sé hafður með fulltrúi úr umhverfisráðuneytinu, sem á þó marga snertifleti með landbúnaðinum, né heldur frá ungum bændum sem lengst þurfa að búa eftir þeirri stefnu sem mörkuð er núna.
Segir enn fremur í tilkynningunni að samtökin skori á ráðherra að endurskoða þessa ákvörðun og halda stærð hópsins óbreyttri svo hann geti staðið undir nafni sem samráðshópur.
Endurskipað í samráðshóp
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, endurskipaði í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga í janúar í fyrra. Samkvæmt fréttatilkynningu frá ráðuneytinu á þeim tíma var sérstaklega horft til þess að auka vægi umhverfis- og neytendasjónarmiða í hópnum.
Mat ráðherra á þeim tíma var að mikilvægt hefði verið að víðtæk samvinna og sátt myndi nást við breytingar á búvörusamningi og búvörulögum. Í stjórnarsáttmála segði m.a. „… að við þessar breytingar verði lögð áhersla á hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda. Áfram verði tryggð framleiðsla heilnæmra, innlendra afurða í umhverfisvænum og samkeppnishæfum landbúnaði.“ Breið aðkoma hagsmunaaðila við endurskoðun búvörusamnings hefði því verið því nauðsynleg.
Samráðshópurinn minnkar á ný
Kristján Þór ákvað í lok síðasta árs að endurskipa enn á ný samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga.
Í tilkynningu ráðuneytisins þann 27. desember síðastliðinn segir að upphaflega hafi verið lagt upp með að skipaður yrði sjö manna samráðshópur en í tíð tveggja síðustu ríkisstjórna hafi fulltrúum fjölgaði í 13. Nú hafi verið ákveðið fækka þeim að nýju og verði óskað eftir nýjum tilnefningum á næstu dögum. Tryggt verði að störf hópsins endurspegli áform búvörulaga um „aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni.“
Segir jafnframt í tilkynningunni að samráðshópnum verði sent erindisbréf sem taki mið af þeim umræðum sem fram fóru á Alþingi þegar gildandi búvörulög voru samþykkt og þeim áherslum sem fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Lögð verði áhersla á að hópurinn ljúki störfum sem fyrst og eigi síðar en í lok árs 2018.