Fjórir sækjast eftir þriðja sætinu á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Flokksval fer fram þann 10. febrúar.
Sabine Leskopf varaborgarfulltrúi sendi út yfirlýsingu í gær þar sem hún býður sig fram í 3.-4. sæti í prófkjörinu. Hún hefur verið varaborgarfulltrúi frá árinu 2014, setið fyrir hönd Samfylkingarinnar í skóla- og frístundaráði og mannréttindaráði, verið formaður heilbrigðisnefndar og varamaður í innkauparáði.
Sabine er upphaflega frá Þýskalandi en hefur búið á Íslandi frá árinu 2000. Hún er menntuð í viðskiptafræði, erlendum tungumálum og kennslufræði. Sabine leggur áherslu á innflytjendamál og hefur meðal annars gegnt embætti formanns Samtaka kvenna af erlendum uppruna.
Í dag sendi síðan Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sækist eftir 3. sætinu. Hann hefur verið kjörinn borgarfulltrúi frá árinu 2014 og segist sem formaður umhverfis- og skipulagsráðs hafa beitt sér í þágu þétts og mannvæns borgarumhverfis. Hjálmar vill efla valkosti á húsnæðismarkaði og í samgöngum. Berjast fyrir því að borgarlínan verði til, fái pláss og fjármagn, byggður verði flugvöllur í Hvassahrauni til að hægt verði að byggja upp í Vatnsmýrinni.
Áður höfðu þeir Aron Leví Beck formaður ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og borgarfulltrúinn Skúli Helgason lýst yfir framboði í 3. sætið í forvali Samfylkingarinnar.