Árni Sigfússon, sem var bæjarstjóri í Reykjanesbæ í tólf ár og borgarstjóri í Reykjavík í nokkra mánuði árið 1994, ætlar að hætta í stjórnmálum og verður ekki í framboði sveitastjórnarkosningunum í vor. Árni hefur verið óbreyttur bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ síðastliðinn fjögur ár eftir að Sjálfstæðisflokkurinn missti meirihluta sinn í sveitarfélaginu í kosningunum 2014.
Árni greinir frá þessari ákvörðun í aðsendri grein í Víkurfréttum í dag. Þar fer hann yfir feril sinn í stjórnmálum, sem hófst í borgarstjórn Reykjavíkur 1986, og þau verk sem hann er stoltastur af úr bæjarmálapólitíkinni á Suðurnesjum og segir meðal annars að samfélagið þar hafi „menntað sig út úr kreppunni.“
Árni segir að í einlægni sagt þá hafi hann lengstum verið drifinn áfram í gegnum þykkt og þunnt í pólitík af löngun til að skapa betra samfélag. Nú sé hins vegar kominn tími til að kveðja eftir 30 ára þátttök og það sé annarra að taka keflið.
Miklar sviptingar í bæjarstjóratíð Árna
Reykjanesbær varð fyrir miklum búsifjum á þeim tíma sem Árni var bæjarstjóri þar, en hann var oddviti Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu og bæjarstjóri frá árinu 2002-2014. Árið 2006 hvarf Bandaríkjaher frá landinu. Herinn var gríðarlega stór atvinnuveitandi og sveitarfélögin á Suðurnesjum höfðu af honum margháttaðar tekjur.
Sú áætlun fór ekki alveg eins og upp var lagt. Þess í stað endaði Reykjanesbær sem eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins og rekstur þess undanfarin ár hefur verið afleitur. Á tímabilinu 2003 til 2014 var A-hluti Reykjanesbæjar rekinn í tapi öll árin utan eins, það var árið 2010.
Vegna þessa þurfti sveitarfélagið meðal annars að leggja auknar skattbyrðar á íbúa sína.
Þessi staða varð meðal annars til þess að Sjálfstæðisflokkurinn missti hreinan meirihluta sinn í kosningunum 2014 og Árni sat því í minnihluta síðustu fjögur ár sín sem bæjarfulltrúi.